Fyrstu landsleikirnir á Íslandi

Íslenskt bandí er í sókn. Flestir þekkja íþróttina eflaust úr …
Íslenskt bandí er í sókn. Flestir þekkja íþróttina eflaust úr skólaleikfimi en nú er hægt að æfa hana allt árið um kring með íslenskum félagsliðum. Ljósmynd/IFF

Íslenska karlalandsliðið í bandí leikur sína fyrstu heimaleiki í sögu íþróttarinnar hér á landi þegar liðið tekur á móti Bandaríkjamönnum í tveimur leikjum um næstu helgi.

Ísland er á leið í undankeppni fyrir HM sem fram fer í Finnlandi í lok næsta árs og eru leikirnir liður í undirbúningi fyrir komandi mótsleiki. Ísland er sem stendur í 29. sæti heimslistans og hefur aldrei verið sterkara. Stærsta stjarna liðsins er Andreas Stefánsson sem spilar með Pixbo í sænsku ofurdeildinni, sem talin er sú sterkasta í heimi. Hann var valinn nýliði ársins í deildinni og var næstmarkahæstur árið 2017. Fleiri leikmenn íslenska liðsins spila í sterkum liðum á Norðurlöndum en meirihluti hópsins leikur þó með félagsliðum hérlendis.

Bandaríkin eru í 15. sæti á heimslistanum og hafa þegar tryggt sér sæti á HM 2020. Ísland byrjar sína undankeppni í byrjun næsta árs og er í riðli með Danmörku, Eistlandi og Bretlandi.

Fyrri leikur Íslands og Bandaríkjanna fer fram laugardaginn 9. nóvember kl. 19 og seinni leikurinn sunnudaginn 10. nóvember kl. 15. Báðir leikir fara fram í íþróttahúsinu Digranesi í Kópavogi. Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir.

mbl.is