Metaregn Aldísar Köru í Egilshöll

Aldís Kara Bergsdóttir leikur listir sínar.
Aldís Kara Bergsdóttir leikur listir sínar. Ljósmynd/ÍSS

Aldís Kara Bergsdóttir stal senunni í Skautahöll Egilshallar um helgina þegar hún sýndi listir sínar á Vetrarmóti Skautasambands Íslands í listhlaupi á skautum.

Aldís Kara, sem keppir fyrir SA, hefur verið á mikilli siglingu undanfarið og náði nýverið stigaviðmiðum í stuttu prógrammi inn á heimsmeistaramót unglinga. Hún hefur sett hvert metið á fætur öðru í unglingaflokki síðan í janúar og hélt því áfram í Grafarvoginum um helgina. Í stutta prógramminu bætti hún Íslandsmet sitt um þrjú stig og í frjálsa prógramminu um 0,74 stig. Heildarstigametið bætti hún svo um alls 11,60 stig, en metin voru öll í hennar eigu áður. Um er að ræða hæstu stig sem íslenskur skautari hefur fengið.

Mótið í Egilshöll var annað mótið í bikarmótaröð vetrarins en keppendur safna stigum yfir keppnistímabilið á þremur mótum. Lokamótið verður í mars og eftir það verður bikarmeistari krýndur.

Aldís Kara fékk 44,95 stig í stutta prógramminu í unglingaflokki en Marta María Jóhannsdóttir, einnig úr SA, varð önnur þar með 39,44. Þriðja varð Viktoría Lind Björnsdóttir úr SR með 35,11 stig. Í frjálsa prógramminu fékk Aldís Kara 82,74 stig, Marta María fékk 70,12 stig og Viktoría Lind 61,41 stig, svo röðunin í heildarstigakeppninni var sú sama.

Nánar má lesa um úrslit mótsins á heimasíðu Skautasambands Íslands.

mbl.is