Ekki fundnir sekir um svindl

Alexander Vinokourov hlaut gullverðlaunin í hjólreiðum á Ólympíuleikunum 2012.
Alexander Vinokourov hlaut gullverðlaunin í hjólreiðum á Ólympíuleikunum 2012. Ljósmynd/Wikipedia.org

Tveir þekktir hjólreiðamenn, Alexander Vinokourov og Alexander Kolobnev, voru í dag sýknaðir af ákæru um svindl í þekktri belgískri hjólreiðakeppni árið 2010. Belgíska fréttastofan Belga greinir frá þessu.

Vinokourov vann gullið í hjólreiðum á Ólympíuleikunum í London árið 2012 eftir að hafa verið í keppnisbanni frá árinu 2007 til 2009 fyrir lyfjamisnotkun. Hann var sakaður um að hafa greitt Rússanum Alexander Kolobnev 150 þúsund evrur, eða 21 milljón króna, fyrir að leyfa honum að sigra Liege-Bastogne-Liege-hjólreiðakeppnina 2010. Ef þeir hefðu verið fundnir sekir hefðu þeir átt yfir höfði sér allt að sex mánaða fangelsi auk sektar. 

Alexander Kolobnev.
Alexander Kolobnev. Ljósmynd/Wikipedia.org

Hjólreiðamennirnir voru sakaðir um að hafa komist að samkomulagi um að Vinokourov, sem er frá Kasakstan, færi með sigur af hólmi. Rannsóknin byggði á tölvupóstum á milli þeirra og tveimur millifærslum í banka, annarri upp á 100 þúsund evrur og hin 50 þúsund evrur, í júlí og desember 2010. Keppnin fór fram í apríl. Á þeim tíma voru þeir hvor í sínu hjólreiðaliðinu, Vinokourov keppti fyrir Astana, þar sem hann er nú framkvæmdastjóri, og Kolobnev fyrir rússneska liðið Katusha.

Samkvæmt frétt AFP er það opinbert leyndarmál í hjólreiðaheiminum að slíkir samningar um gullverðlaun séu alþekktir. 

mbl.is