Kemst Kári með hópfjármögnun á ÓL í Tókýó?

Kári Gunnarsson vinnur að því að komast til Tókýó.
Kári Gunnarsson vinnur að því að komast til Tókýó. mbl.is/Árni Sæberg

Aðeins einn íslenskur íþróttamaður hefur nú þegar tryggt sér sæti á Ólympíuleikunum sem fram fara í Tókýó næsta sumar en Kári Gunnarsson rær nú að því öllum árum að komast á leikana og keppa þar í badminton.

Kári hefur í samvinnu við badmintonsamband Íslands og „hjálpsama aðila“ sett af stað hópfjármögnun til að safna 2 milljónum króna sem hann þarf til að komast á alþjóðleg mót og vinna sig inn á Ólympíuleikana.

„Frá því að ég var 9 ára hef ég verið alveg brjálaður í badminton. Einu skiptin sem ég skrópaði úr skólanum var til þess að fara að leika mér í badmintonhöllinni eða til þess að horfa á eldri og betri spilara æfa. Þegar ég var 13 ára borðaði ég ekki sykur í meira en ár — ekki af því að ég væri að glíma við einhver aukakíló, heldur af því að ég hélt að með þeim hætti gæti ég bætt mig örlítið í badminton. Þegar möguleikinn bauðst að keppa alþjóðlega fram að Ólympíuleikunum í TOKYO á næsta ári á vegum uppáhaldslands míns í heimi þá fannst mér það nú augljóst að ég vildi að gera það,“ skrifar Kári á Facebook-síðu sína þar sem hann greinir frá hópfjármögnuninni.

Kári er sem stendur í 136. sæti á heimslistanum en sá neðsti á listanum sem er „inni“ á Ólympíuleikunum núna er 27 sætum ofar. Kári þarf því að klífa upp listann en hann hefur hækkað sig um hundruð sæta á síðustu tveimur árum. Eina leiðin til að komast ofar á listanum er að spila á mótum erlendis og það kostar sitt.

Á meðal þess sem Kári býður þeim sem styðja við hann eru einkatímar í badminton. Söfnuninni lýkur 5. desember en hægt er að fræðast meira um söfnunina með því að smella hér.

Sundmaðurinn Anton Sveinn McKee er eini íslenski íþróttamaðurinn sem þegar hefur tryggt sér sæti á Ólympíuleikunum sem hefjast 24. júlí og standa yfir til 9. ágúst næsta sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert