Ólympíufari með skottið fullt af e-pillum og metamfetamíni

Madiea Ghafoor verður næstu árin í fangelsi. Hér liggur hún …
Madiea Ghafoor verður næstu árin í fangelsi. Hér liggur hún eftir að hafa hlaupið á HM í London 2017. AFP

Hollenska frjálsíþróttakonan Madiea Ghafoor hefur verið dæmd í átta og hálfs árs fangelsi fyrir fíkniefnasmygl.

Ghafoor, sem er 27 ára, var stöðvuð á leið sinni frá Hollandi yfir til Þýskalands og reyndist vera með 50 kg af e-pillum og 2 kg af metamfetamíni í skottinu á bílnum sínum, auk 1,6 milljóna króna í reiðufé. Söluvirði efnanna er talið nema jafnvirði 320 milljóna króna.

Ghafoor, sem var í sveit Hollands í 4x400 metra boðhlaupi á síðustu Ólympíuleikum, í Ríó árið 2016, hélt fram sakleysi sínu í dómsal. Sagðist hún hafa haldið að hún væri að flytja lyf yfir landamærin.

Frjálsíþróttasamband Hollands harmar málið og fordæmir hegðun Ghafoor. Málinu hefur verið vísað til lyfjaeftirlits til að kanna hvort reglur um ólöglega lyfjanotkun frjálsíþróttafólks hafi verið brotnar.

mbl.is