Arnar Davíð í úrslit um PBA-titil - Tryggði sér milljónir

Arnar Davíð Jónsson verður sennilega útnefndur keiluspilari ársins í Evrópu.
Arnar Davíð Jónsson verður sennilega útnefndur keiluspilari ársins í Evrópu.

Arnar Davíð Jónsson mun leika til úrslita um PBA-titil í keilu í dag og er þegar öruggur um 2. sæti sem færir honum 25.000 Bandaríkjadali í verðlaun, jafnvirði um 3,1 milljónar króna.

Arnar Davíð, sem spilar fyrir KFR, er að keppa í úrslitum World Bowling Tour í Kúveit en hann var valinn til að spila þar sem efsti maður á Evrópulistanum. Arnar spilaði hreint út sagt frábærlega í morgun og skilaði leikjum upp á 272 stig að meðaltali, eða 246-279-279-278-278.

PBA er bandaríska atvinnumótaröðin í keilu og sú stærsta í keiluíþróttinni. Það að Arnar Davíð sé kominn í úrslit á slíku móti er því risastórt skref fyrir keiluíþróttina á Íslandi. Mótið í Kúveit er þó í 3. styrkleikaflokki móta í PBA-mótaröðinni og því ekki eitt af sterkustu mótunum, en sterkt engu að síður.

Sextán manns spiluðu í 3. umferð úrslita og þar sem að Arnar Davíð endaði efstur þar er hann öruggur um að minnsta kosti 2. sæti mótsins. Fimm keppendur komust áfram og svo er fyrirkomulagið þannig að 5. sæti spilar við 4. sæti, sigurvegarinn þar við 3. sæti, og svo koll af kolli. Vinni Arnar Davíð titilinn fær hann 50.000 Bandaríkjadali í verðlaun, jafnvirði um 6,2 milljóna króna.

Úrslitaleikurinn fer fram kl. 13 að íslenskum tíma og hægt verður að fylgjast með í gegnum Facebook-síðu Keilusambands Íslands.

mbl.is