Hákon gerði góða ferð til Svíþjóðar

Hákon Atli Bjarkason (til vinstri) gerði góða ferð til Svíþjóðar.
Hákon Atli Bjarkason (til vinstri) gerði góða ferð til Svíþjóðar. Ljósmynd/Borðtennissamband Íslands

Uppgangur er í hjólastólaflokknum í borðtennis á Íslandi og fer þar nú fremstur í flokki Hákon Atli Bjarkason úr ÍFR. Hefur Hákon verið duglegur að undanförnu að sækja æfingar hjá öðrum félagsliðum en Bjarni Þorgeir Bjarnason þjálfari í HK hefur einnig verið með hann í einstaklingsæfingum.

Síðustu helgi tók Atli þátt í parakeppni í Svíþjóð og gekk honum vel. Með honum til halds og trausts í ferðinni var Bjarni Þorgeir Bjarnason þjálfari. Hákon Atli keppti í tvíliðaleik með Philip Brooks frá FIFH Malmö en var þetta fyrsta skipti sem þeir spiluðu saman.

Á leið í úrslitin mættu þeir liði frá Noregi en annar leikmanna þar var Sebastian Vegsund sem fékk brons í liðakeppni á EM síðastliðið sumar og vann hann þá einnig gull á Evrópumótinu undir 23 ára. Þeir Hákon Atli og Philip unnu þann leik örugglega 3:0 (13:11, 11:4 og 11:6).

Í úrslitum mættu þeir David Olsson og Isak Nyholm sem eru sænskir landsliðsmenn og taldir vera framtíð sænska liðsins í hjólastólakeppni. Þeir eru ríkjandi sænskir meistarar í tvíliðaleik og fengu silfur í liðakeppninni á Evrópumótinu undir 23 ára síðastliðið sumar.

Leikurinn var æsispennandi. Þeir Hákon Atli og Philip komust í 2:1 eftir að hafa unnið 11:4 og 13:11 og tapað 9:11. Í fjórðu lotunni var staðan 9:9 en Svíarnir voru sterkari á endasprettinum. Í oddalotunni náðu þeir félagar sér ekki á strik og tóku Svíarnir hana 11:6.

Þrátt fyrir að Svíarnir hefðu haft betur að þessu sinni í úrslitaleiknum þá er árangur þeirra Hákons og Philip glæsilegur í flokknum.

Í opnun flokki á mótinu keppti Hákon Atli í performance 2 flokknum. Hann var óheppinn með drátt og lenti í riðli með tveimur standandi leikmönnum. Hákon lék vel en Gerry Roshdal sem vann opna flokkinn sigraði 3:1. Hinn leikurinn gegn Erik Prusakiewicz fór í oddalotu en Erik endaði í þriðja sæti í sínum standandi flokki.

Í flokki 4-5 fór Hákon Atli alla leið í undansúrlit. Þar mætti hann Isak Nyholm sem er sænskur landsliðmaður í 14. sæti í Evrópu í þeim flokki sem Hákon er í. Atli spilaði vel en sá sænski hafði betur 3:0 (11:9 ,11:4 og 11:6).

Árangur Hákons Atla á mótinu var frábær og ætlar hann að halda áfram stífum æfingum.

Næsta alþjóðlega mótið sem Hákon Atli ætlar á eru í febrúar og mars á næsta ári, nánar tiltekið Malmö Open og Costa Brava Para Open. Stefnir hann á að komast í æfingabúðir erlendis fyrir þann tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert