Þrístökki og kringlukasti hent út

Guðni Valur Guðnason hefur aldrei keppt á Demantamóti og tækifærunum …
Guðni Valur Guðnason hefur aldrei keppt á Demantamóti og tækifærunum til þess hefur nú snarfækkað.

Fjórar greinar, þar á meðal 200 metra hlaup, hafa verið teknar út af lista yfir kjarnagreinar Demantamótaraðarinnar í frjálsum íþróttum fyrir næsta keppnistímabil.

Um er að ræða þrístökk, kringlukast, 200 metra hlaup og 3.000 metra hindrunarhlaup, hjá konum og körlum. Áður hafði verið ákveðið að keppt yrði í 12 greinum karla og 12 greinum kvenna á úrslitamóti Demantamótaraðarinnar á næsta ári, og nú er ljóst á hvaða íþróttafólki það bitnar. Þar á meðal er sænski kringlukastarinn Daniel Ståhl, lærisveinn Vésteins Hafsteinssonar.

Samkvæmt könnun Demantamótaraðarinnar nutu fyrrnefndar fjórar greinar minnstra vinsælda, fyrir utan 200 metra hlaupið. Það var hins vegar einnig tekið af dagskrá þar sem skipuleggjendum þótti of mikið að hafa bæði 100 og 200 metra hlaup, sérstaklega á ólympíuári.

Það verður þó keppt í greinunum fjórum á hluta af mótum Demantamótaraðarinnar. Þannig verða alls 10 mót (fimm fyrir karla og fimm fyrir konur) þar sem keppt verður í 200 metra hlaupi og 3.000 metra hindrunarhlaupi, og tvö mót fyrir kringlukast og þrístökk. En þegar keppt verður um verðlaunaféð í úrslitum mótaraðarinnar í Zürich verður ekki hægt að sjá keppendur í þessum greinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert