Anton Sveinn í 3. sæti á Pro Swim - Keppir á EM í Glasgow

Anton Sveinn McKee hefur keppt á tvennum Ólympíuleikum og er …
Anton Sveinn McKee hefur keppt á tvennum Ólympíuleikum og er á leið á sína þriðju næsta sumar. Ljósmynd/Simone Castrovillari

Anton Sveinn McKee hefur þegar tryggt sér sæti á Ólympíuleikunum í Tókýó næsta sumar, einn íslenskra íþróttamanna. Undirbúningur hans fyrir leikana er hafinn.

Anton er nú við keppni á Pro Swim móti í Greensboro í Norður Karólínufylki í Bandaríkjunum. Í gær synti hann 100 metra bringusund og hafnaði í 3. sæti á 1:01,25 mínútu, eftir að hafa synt á 1:00,94 í undanrásum.

Íslandsmet Antons í 100 metra bringusundi er 1:00,32 en hann hefur verið í stífum æfingum undanfarið og ekki með það í huga að toppa á þessu móti. Hann keppir svo í 200 metra bringusundi á morgun.

Í byrjun næsta mánaðar keppir Anton Sveinn á EM í 25 metra laug í Glasgow í Skotlandi þar sem hann keppir í 50, 100 og 200 metra bringusundi. Hann tekur hins vegar ekki þátt í Íslandsmeistaramótinu sem hefst í Ásvallalaug í dag.

mbl.is