Hélt uppteknum hætti á Íslandsmeistaramótinu

Ingibjörg Kristín Jónsdóttir heldur áfram að gera það gott á …
Ingibjörg Kristín Jónsdóttir heldur áfram að gera það gott á Íslandsmeistaramótinu en hún lagði sundhettuna á hilluna á síðasta ári en ákvað að snúa aftur til keppni fyrir nokkrum vikum síðan. mbl.is/Árni Sæberg

Ingibjörg Kristín Jónsdóttir, SH, hélt uppteknum hætti á Íslandsmeistaramótinu í sundi í 25 metra laug sem fram fer í Ásvallalaug í Hafnarfirði í dag en hún gerði sér lítið fyrir og náði tveimur lágmörkum fyrir Evrópumótið í Glasgow sem fram fer í næsta mánuði. Lágmörkunum náði Ingibjörg í 50 metra skriðsundi og 50 metra flugsundi. 

Ingibjörg kom fyrst í mark í úrslitum í 50 metra flugsundi á tímanum 26,95 sekúndur en lágmarkið fyrir EM var 27,18 sekúndur. Ingibjörg Kristín náði einnig lágmarki í 50 metra baksundi í gær, þar sem hún varð Íslandsmeistari eftir harða baráttu við Eygló Ósk Gústafsdóttur, en hún hefur nú náð þremur EM lágmörkum á mótinu.

Dadó Fenrir Jasminuson kom fyrstur í mark í bæði 50 …
Dadó Fenrir Jasminuson kom fyrstur í mark í bæði 50 metra skriðsundi og 100 metra skriðsundi. mbl.is/Árni Sæberg

Þá féll Íslandsmetið í 4x100 metra skriðsundi kvenna en A-sveit SH synti þá á tímanum 3:49,66 mínútum og bætti þar með tíu ára gamalt Íslandsmet sveitar Ægis sem var 3:50,80 mínútur. Það voru þær Jóhanna Elín Guðmundsdóttir, Katarína Róbertsdóttir, Steingerður Hauksdóttir og Ingibjörg Kristín Jónsdóttir sem skipuðu A-sveit SH.

Eygló Ósk Gústafsdóttir, ÍBR,  fagnaði sigri í 100 metra baksundi kvenna en hún kom fyrst í mark á tímanum 59,94 sekúndur. Eygló á Íslandsmetið í greininni sem er 57,42 sekúndur en hún var lang fyrst í marki í dag en hún hafði, fyrir sund dagsins, náð lágmarki í greininni fyrir EM í Glasgow.

Dadó Fenrir Jasminuson, SH, kom fyrstur í mark í 100 metra skriðsundi karla, líkt og hann gerði í 50 metra skriðsundi í gær, þar sem hann náði lágmarki fyrir EM. Kristinn Þórarinsson, ÍBR, fékk svo gullverðlaun í 50 metra baksundi en Kristinn fékk einnig gullverðlaun í 100 metra fjórsundi í gær.

Kristinn Þórarinsson fékk gullverðlaun í 50 metra baksundi.
Kristinn Þórarinsson fékk gullverðlaun í 50 metra baksundi. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is