Bergrún fimmta á HM á nýju persónulegu meti

Bergrún Ósk Aðalsteinsdóttir stekkur í Dubai í dag.
Bergrún Ósk Aðalsteinsdóttir stekkur í Dubai í dag. Ljósmynd/Jón Björn

Bergrún Ósk Aðalsteinsdóttir úr ÍR hafnaði í 5. sæti í langstökki á heimsmeistaramóti fatlaðra í frjálsum íþróttum sem nú stendur yfir í Dubai. Bergrún stökk lengst 4,27 metra sem er persónulegt met.

Bergrún, sem keppir í flokki F37, (hreyfihamlaðir) var í fjórða sæti eftir fimm fyrstu umferðirnar en hin franska Manon Gnest náði að læða sér framúr henni í lokaumferðinni með stökki upp á 4,30 metra.

Bergrún var aðeins einum sentímetra frá Íslandsmeti Matthildar Ylfu Þorsteinsdóttur í flokknum sem er 4,28 metrar. Lengsta stökk Bergrúnar kom í fyrstu umferð en hún stökk einnig 3,96 metra og 4,16 metra en þrjú síðustu stökkin hennar voru ógild. 

Hin kínverska Wen Xiaoyan varð heimsmeistari á nýju heimsmeti þegar hún stökk 5.22 metra.

Hin 19 ára gamla Bergrún er að keppa á sínu fyrsta heimsmeistaramóti og á tvær greinar eftir enn en það er keppni í 100m og 200m hlaupi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert