Tom Brady hvergi nærri hættur

Tom Brady er hvergi nærri hættur.
Tom Brady er hvergi nærri hættur. AFP

Tom Brady, leikmaður New England Patriots sem af mörgum er talinn besti leikstjórnandi í sögu NFL-deildarinnar, er farinn að huga að því hvenær hann hyggst leggja skóna á hilluna. Leikstjórnandinn, sem nú þegar er orðinn 42 ára gamall, staðfesti í viðtali á dögunum að hann væri búinn að ákveða að hætta íþróttaiðkun eftir þrjú ár. Að hans sögn er tímapunkturinn engin tilviljun.

„Ég setti mér þetta markmið vegna þess að það er virkilega erfitt að ná því. Fæstum tekst það,“ sagði Brady og bætti við að ef ekki væri fyrir ást hans á amerískum fótbolta væri hann nú þegar búinn að leggja skóna á hilluna. „Þú verður alltaf að hafa markmið, til lengri og skemmri tíma. Hjá mér snýst þetta samt fyrst og fremst um ást á íþróttinni. Af hverju ætti ég að hætta því sem ég elska að gera? Ég sé enga ástæðu til þess,“ sagði Brady.

Kvartar ekki undan gagnrýni

Tom Brady hefur unnið leikinn um Ofurskálina oftar en nokkur annar leikmaður, sex sinnum, og unnið langflesta leiki í deildinni meðal leikstjórnenda. Þrátt fyrir það rignir oft á tíðum gagnrýni yfir leikmanninn þegar ekki gengur sem skyldi eða ef lið hans, New England Patriots, sýnir veikleikamerki. Aðspurður sagðist Brady ekki kvarta undan gagnrýninni. Þá geri hann sér grein fyrir að allt taki enda.

„Ég held að það sé mjög eðlilegt að fólk efist um íþróttamenn sem eru komnir á þennan aldur. Það segir sig sjálft að þetta mun einn daginn taka enda og auðvitað vilja allir vera fyrstir til að spá fyrir um það. Ég einbeiti mér hins vegar bara af því að sem ég er að gera og nýt um leið líðandi stundar.“

New England Patriots eru nú í góðri stöðu í NFL-deildinni og hafa unnið átta af fyrstu níu leikjum tímabilsins. Næsti leikur liðsins er á sunnudag gegn Philadelphia Eagles.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert