Bætti 133 ára gamalt met á veltipétri

Richard Thoday eftir að hafa hjólað 874 mílur, eða 1.406 …
Richard Thoday eftir að hafa hjólað 874 mílur, eða 1.406 kílómetra, á veltipétri frá suðri til norðurhluta Bretlands. Ljósmynd/Penny Farthing End to End

Heimsmetabók Guinness hefur staðfest met Bretans Richard Thoday, en í júlí hjólaði hann á svokölluðum veltipétri frá Land's End til John O'Groats, lengstu vegalengd milli tveggja bæja á Bretlandseyjum, á nýjum mettíma. Fór Thoday vegalendina á fjórum dögum og 12 klukkustundum og braut þar með 133 ára gamalt met sem sett var árið 1886 af hjólreiðamanninum G.P. Mills.

Samtals er vegalengdin milli bæjanna tveggja 874 mílur, eða 1.406 kílómetrar. Er Land's End á suðvesturodda Englands en John O'Groats er í norðaustasta hluta Skotlands.

Veltipétur er forveri hins klassíska reiðhjóls og þekkja flestir eflaust til hjólsins af myndum frá því um aldamótin 1900. Fremra hjólið er risastórt en það aftara mun minna. Hjólið er án gíra en getur náð talsverðum hraða, meðal annars vegna þess hversu stórt fremra hjólið er, en það er knúið beint áfram af hjólreiðamanninum án alls drifbúnaðar.

Thoday bætti met Mills um 13 klukkustundir, en hann hefur frá því í júlí beðið eftir formlegum úrskurði heimsmetabókarinnar. Í umfjöllun BBC segir að Thoday hafi hjólað á veltipétri undanfarin 10 ár og það hafi tekið hann 10 mánuði að skipuleggja mettilraunina.

Íslendingar fengu að kynnast hjólreiðum á veltipétri í fyrra, en þá fór Bretinn Joff Sum­merfield kringum landið á slíku faratæki. Var það hluti af 45 þúsund kílómetra ferðalagi hans, en hann hefur frá árinu 1999 tvisvar farið hringinn í kringum jörðina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert