Örlög Emery voru ráðin

Unai Emery náði frábærum árangri hjá Sevilla en náði ekki …
Unai Emery náði frábærum árangri hjá Sevilla en náði ekki flugi hjá Arsenal. AFP

Örlög Unai Emery, fráfarandi knattspyrnustjóra Arsenal, voru ráðin fyrir leikinn gegn Frankfurt. Stan Kroenke, eigandi félagsins, hafði veitt stjórnendum klúbbsins heimild til að hefja leit að eftirmanni Emery.   

Breska götublaðið The Sun fullyrðir þetta.

Samkvæmt heimildum þess flugu þeir Raul Sanllehi, yfirmaður knattspyrnumála, og Vinai Venkatesham, framkvæmdastjóri félagsins, til Colorado fyrr í þessari viku til að ræða vanda félagsins við Kroenke og son hans Josh.

Segir blaðið að hálftómur Emirates-leikvangurinn í leiknum gegn Frankfurt, og andleysi leikmanna liðsins, hafi endanlega riðið baggamuninn.

Arsenal er nú í 8. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 18 stig. Til samanburðar hefur toppliðið, Liverpool, fengið 37 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert