Bogfimisambands Íslands stofnað

Þorsteinn Halldórsson á HM í Bogfimi í Kína
Þorsteinn Halldórsson á HM í Bogfimi í Kína Ljósmynd/ÍF

Stofnþing Bogfimisambands Íslands (BFSÍ) verður haldið sunnudaginn 1. desember nk. kl.13:00 í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal. Á þinginu verður fyrsta stjórn sambandsins kosin og lög sambandsins tekin til afgreiðslu.

Bogfiminefnd ÍSÍ hefur starfað innan vébanda ÍSÍ um langt skeið og hefur nefndin haft umsjón með útbreiðslu og uppbyggingu greinarinnar á Íslandi undir leiðsögn og eftirliti Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. Undanfarin ár hefur síðan verið unnið að stofnun sérsambands um bogfimi enda íþróttin vaxið hratt á landsvísu.

Bogfimi, sem er ólympísk íþrótt, er nú stunduð í 10 íþróttafélögum í eftirfarandi níu íþróttahéruðum innan ÍSÍ: Héraðssambandinu Skarphéðni (HSK), Héraðssambandi Vestfirðinga (HSV), Héraðssambandi Þingeyinga (HSÞ), Íþróttabandalagi Akureyrar (ÍBA), Íþróttabandalagi Hafnarfjarðar (ÍBH), Íþróttabandalagi Reykjavíkur (ÍBR), Ungmenna- og íþróttasambandi Austurlands (UÍA), Ungmennasambandi Kjalarnesþings (UMSK) og Ungmennasambandi Skagafjarðar (UMSS).

Ísland hefur teflt fram keppendum í bogfimi á alþjóðlegum mótum. Á Evrópuleikunum í Bakú 2015 keppti Sigurjón Atli Sigurðsson og á Evrópuleikunum í Minsk 2019 keppti Eowyn Marie Alburo Mamalias í trissuboga, en hún var yngsti keppandinn á leikunum. Einnig var keppt í bogfimi á Smáþjóðaleikunum í San Marínó árið 2017 og áttu íslenskir keppendur þar góðu gengi að fagna, m.a. unnust gullverðlaun og bronsverðlaun í trissuboga kvenna.

Með stofnun Bogfimisambands Íslands verða sérsambönd ÍSÍ orðin 33 talsins.

mbl.is