Júlía tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn

Júlía Rós Viðarsdóttir er Íslandsmeistari.
Júlía Rós Viðarsdóttir er Íslandsmeistari. Ljósmynd/Hafsteinn Snær

Júlía Rós Viðarsdóttir var í dag Íslandsmeistari í Advanced novice-flokknum í listhlaupi á skautum í Skautahöll Reykjavíkur. Júlía endaði með samanlagt 80,83 stig og var tæpum tíu stigum á undan Freydísi Jónu Jing Bergsveinsdóttur sem varð önnur. Rebekka Rós Ómarsdóttir hafnaði í þriðja sæti með 69,53 stig. 

Aldís Kara Bergsdóttir varð meistari í Junior-flokknum. Fékk hún samanlagt 118,22 stig, sjö stigum meira en Viktoría Lind Björnsdóttir sem varð í öðru sæti. Hér að neðan má sjá umfjöllun Skautasambands Íslands frá mótinu. 

Frétt frá Skautasambandinu: 

Síðari dagur keppni á Íslandsmeistaramóti í flokkum Advanced novice og junior var í dag. Keppendur höfðu keppt með stutt prógram í gær og var keppnisröð öfug úrslitaröð frá stutta prógraminu. Það var því Júlía Sylvía Gunnarsdóttir sem hóf keppni í Advanced novice.

Júlía átti dúndurdag og endaði með önnur hæstu stig dagsins í frjálsa prógraminu eða 45.16 stig og samanlagt 63.60 stig. Næst kom Herdís Heiða Jing Guðjohnsen með skemmtilegt prógram. Herdís reyndi við tvöfalda Axelinn að vanda en þótt hann hafi verið að stríða henni undanfarið túlkar hún alltaf prógröm sín í topp.

Freydís Jóna Jing Bergsveinsdóttir varð önnur.
Freydís Jóna Jing Bergsveinsdóttir varð önnur. Ljósmynd/Hafsteinn Snær

Herdís fékk 38.63 stig fyrir frjálsa prógramið og samanlagt 57.45 stig. Þriðja skautaði svo Eydís Gunnarsdóttir. Eydís er alltaf að styrkjast með hverju mótinu og átti fínan dag með 44.10 stigum fyrir frjálsa prógramið og samanlagt 66.56 stig. Þá var komið að Rebekku Rós Ómarsdóttur sem túlkaði prógramið sitt glæsilega að vanda og kláraði sín element eins og henni er einni lagið.

Rebekka Rós fékk 44.34 stig og endaði í þriðja sæti samanlagt með 69.53 stig. Freydís Jóna Jing Bergsveinsdóttir hafði verið önnur eftir stutta prógramið og skautaði því næst síðust í dag. Hún gerði sér lítið fyrir og skilaði frjálsa prógraminu sínu með jafn miklum stöðugleika eins og daginn í gær með 44.39 stig og samanlagt 70.87 stig sem eins og áður sagði tryggði henni annað sæti.

Júlía Rós Viðarsdóttir lauk keppni í flokkinum með glæsibrag og skautaði sig í fyrsta sætið á þriðja mótinu í röð. Fyrir næstum mínuslaust frjálst prógram fékk hún 51.97 stig og samanlagt 80.83 stig og er því Íslandsmeistari í Advanced novice 2019.

Junior stúlkur voru síðasti keppnisflokkur mótsins. Tvær efstu stúlkurnar voru mjög nálægt hvorri annarri í stigum og því töluverð spenna fyrir mótið í dag. Hildur Bjarkadóttir hóf leikinn með fallegu prógrami og tveimur af fallegustu Loopunum í flokkinum og lauk keppni 42.10 stigum í frjálsa og samanlagt 63.13 stig.

Rebekka Rós Ómarsdóttir varð þriðja.
Rebekka Rós Ómarsdóttir varð þriðja. Ljósmynd/Hafsteinn Snær

Á eftir henni kom Herdís Birna Hjaltalín sem hafði átt stórgóðan dag í gær og sat í þriðja sæti með góð stig. Herdís gerði nokkur mistök en barðist af dáð og fékk 50.99 og í heildina 86.53 stig og hélt þriðja sætinu. Næstsíðust kom svo Aldís Kara Bergsdóttir sem fann sig í öðru sæti eftir fyrri daginn eftir fall í þreföldu Loop í gær.

Aldís raðaði niður þreföldum stökkum og tvöföldum Axel í dag og fékk tvo spinna á level4. Áhorfendur biðu með öndina í hálsinum eftir stigunum fyrir frjálsa sem voru 78.48 og í heild 118.22. Þá var komið að Viktoríu Lind Björnsdóttur sem hefur verið á góðri uppleið í haust og gekk stórvel í gær. Viktoría framkvæmdi sitt prógram af krafti og negldi þriggja stökka samsetningu í byrjun prógramsins með plúsum.

Mistök með fyrri Axelinn kostuðu nokkur dýrmæt stig en heildar stigin voru 69.96 heildarstig voru 111.29 sem eru með því hæsta sem hún hefur fengið. Það var því ljóst að Aldís Kara hafði náð yfir Viktoríu Lind í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn og er því Íslandsmeistari 2019 í Junior er þá Aldís Kara Bergsdóttir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert