Nánast ósyndur fjórtán vikum fyrir keppni

Hjörvar Hermannsson kláraði heilan Járnmann 1. desember í Buenos Aires …
Hjörvar Hermannsson kláraði heilan Járnmann 1. desember í Buenos Aires í Argentínu. Ljósmynd/Aðsend

Hjörvar Hermannsson, 32 ára gamall Kópavogsbúi, gerði sér lítið fyrir um síðustu helgi og kláraði heilan Járnmann (Iron Man) í Buenos Aires í Argentínu. Hjörvar kom í mark á tímanum 14:45 klukkustundir en í Járnmanni eru 3,8 kílómetrar syntir, hjólað 180 kílómetra og hlaupið 42,2 kílómetra. Hjörvar tók ákvörðun síðasta sumar um að skrá sig til leiks í keppni í Járnmanni og ítrekar að allt sé hægt ef viljinn er fyrir hendi.

„Það hefur lengi blundað í mér að klára eitt stykki Járnkarl (Iron Man) enda gríðarlega krefjandi verkefni,“ sagði Hjörvar í samtali við mbl.is. „Ég byrjaði að mæta á æfingar hjá þríþrautarfélaginu Ægi og eftir nokkrar æfingar þar ákvað ég að láta verða af þessu. Mig langaði til þess að taka þátt í keppni á framandi stað sem ég hafði ekki komið á áður og ég hafði sem dæmi aldrei komið til Suður-Ameríku áður. Í sumar sá ég svo að það var keppni í Argentínu í byrjun desember sem ég ákvað að skrá mig í. Ég hafði þá sirka hálft ár til þess að undirbúa mig og eftir að ég sendi inn skráninguna var ekki aftur snúið.“

Hjörvar mætti viku fyrir keppni til Argentínu til þess að …
Hjörvar mætti viku fyrir keppni til Argentínu til þess að venjast sjónum. Ljósmynd/Aðsend

140 æfingar á fjórtán vikum

Markmiðið var að vera duglegur að æfa í allt sumar en það gekk ekki alveg eftir. Í lok ágúst áttaði ég mig á því að ég hafði ekki nema einhverja hundrað daga til stefnu og ég nýtti þá vel í æfingar og annan undirbúning fyrir keppnina. Þríþrautarfélagið Ægir hjálpaði mér mikið í aðdraganda keppninnar og félagið á stórt hrós skilið. Þjálfararnir þarna eru algjörlega frábærir og ég tók eina til tvær æfingar með þeim í viku, ásamt því að vera duglegur að æfa einn. Eins fékk ég mér einkaþjálfara í öllum greinum og allt í allt tók ég einhverjar 140 æfingar á fjórtán vikum. Ég var nánast ósyndur þegar að ég skráði mig í Iron Man og ég gat varla synt meira en 50 metra án þess að stoppa. Það var minn stærsti þröskuldur fyrir keppnina og ég get alveg viðurkennt það að verkefnið var afar krefjandi. Ég er hins vegar fínn hlaupari og með sterkan haus. Ég hafði þess vegna alltaf fulla trú á því að ég gæti klárað þetta.“

Hjörvar viðurkennir að líkaminn hafi oft verið betri eftir mikið …
Hjörvar viðurkennir að líkaminn hafi oft verið betri eftir mikið þrekvirki í Argentínu. Ljósmynd/Aðsend

Mjög erfiðar aðstæður á keppnisdaginn

„Ég hafði aldrei synt áður í sjó og ákvað þess vegna að mæta sjö dögum fyrir keppnina til Argentínu. Ég eyddi fimm dögum í að venjast sjónum þar sem ég hafði í raun bara synt í Kópavogslaug og Laugardalslaug. Það var ákveðið sjokk að koma hérna út og ætla að fara að synda í þungum sjónum hérna þar sem öldurnar eru oftast mjög kraftmiklar. Ég viðurkenni það fúslega að ég kveið mikið fyrir sundinu og ekki bætti það úr skák að ég fékk flensu, þremur dögum fyrir keppni, og var nánast rúmliggjandi nokkrum klukkustundum áður en keppnin hófst. Keppnin sjálf gekk ágætlega, að undanskildu sundinu kannski, sem var frekar erfitt í erfiðum aðstæðum. Það var vindasamt á sjálfan keppnisdaginn og sjórinn var kaldur og sundið fór þess vegna ekki eins og ég hefði viljað. Það var mikill mótvindur í hjólinu og keppnin fór þess vegna ekki alveg eins og ég hefði viljað en aðalmálið í þessu öllu var að klára þetta. Ég var nokkuð stöðugur alla keppnina og hætti fljótlega að pæla í einhverjum tíma. Ég kom í mark á tímanum 14:45 klukkustundir sem er allt í lagi tími.“

Hjörvar kannar aðstæður á ströndinni í Buenos Aires.
Hjörvar kannar aðstæður á ströndinni í Buenos Aires. Ljósmynd/Aðsend

Líkaminn oft verið betri

„Þetta var ákveðið „Bucket List“-dæmi að klára þessa keppni. Ég fékk skemmtilega medalíu fyrir þetta og þetta sýnir manni kannski að ef maður tekur stórar ákvarðanir í lífinu þá getur maður alltaf fylgt þeim eftir ef viljinn er fyrir hendi. Ég get alla vega strikað Járnkarl út af listanum mínum og næstu vikur fara í slökun. Líkaminn hefur oft verið betri en fyrst og fremst er ég ánægður með þetta afrek. Eins er ég gríðarlega stoltur af sjálfum mér að hafa klárað þetta í erfiðum aðstæðum í Argentínu,“ bætti Hjörvar við í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert