Sigursælasta konan í sögu Ólympíuleikanna

Larisa Latinina fékk samtals átján verðlaun á Ólympíuleikum.
Larisa Latinina fékk samtals átján verðlaun á Ólympíuleikum.

Bandaríski sundkappinn Michael Phelps var mjög til umfjöllunar í heimspressunni 31. júlí 2012 þegar hann nældi í sín nítjándu verðlaun á Ólympíuleikum. Setti hann þar með met og sló 48 ára gamalt met sem var í eigu Larisu Latininu. En hver er þessi Latinina? Verulega hefur fennt yfir þau spor sem hún markaði í sögu Ólympíuleikanna enda nokkuð um liðið.

Larisa Latinina var fremsta fimleikakona heims á seinni hluta sjötta áratugarins og fyrri hluta þess sjöunda. Árangur hennar á Ólympíuleikum, heimsmeistaramótum og Evrópumótum er nánast undraverður og ýtti mjög undir þá þróun að Sovétríkin urðu stórveldi í fimleikaheiminum.

Fæddist í Úkraínu

Latinina heitir fullu nafni Larisa Semjonovna Latinina en hét upphaflega Larisa Semjonovna Dirij. Hún fæddist í jólarestinni á millistríðsári eða hinn 27. desember árið 1934. Latinina er því á 85. aldursári. Fæddist hún í Kherson sem er í Úkraínu og ólst upp við erfiðar aðstæður. Faðir hennar virðist hafa yfirgefið fjölskylduna þegar Larisa var einungis 11 ára gömul. Auk þess féll afi hennar í móðurætt í hinni sögufrægu orrustu um Stalíngrad. Móðir hennar var ólæs en vann tvö störf til að framfleyta fjölskyldunni; við ræstingar á daginn og í næturvörslu á nóttunni.

Fæddist í Úkraínu, keppti fyrir Sovétríkin en er í dag …
Fæddist í Úkraínu, keppti fyrir Sovétríkin en er í dag rússneskur ríkisborgari.

Larisa fékk tækifæri til að stunda ballett en sem betur fer fyrir fimleikaheiminn fluttist ballettþjálfari hennar búferlum. Varð það til þess að Larisa ákvað að reyna fyrir sér í fimleikum. Kherson er fámenn borg á mælikvarða Sovétríkjanna sálugu en íbúafjöldi þar í dag er um 300 þúsund. Líklega jókst alvaran í æfingunum hjá Larisu þegar hún fluttist til Kænugarðs árið 1953. Hún hafði þá lokið námi í menntaskóla og við tók nám í Kharkiv Polytechnic-skólanum.

Besta fimleikakona heims

Hlutirnir gerðust hratt í framhaldinu og árið 1956 var Larisa komin á Ólympíuleikana í Melbourne. Leikar sem hringja heldur betur bjöllum hjá íslensku íþróttaáhugafólki. Larisa var þá enn 21 árs gömul. Ef til vill hefur hún rekist á þá Vilhjálm Einarsson og Hilmar Þorbjörnsson í ólympíuþorpinu. Hver veit.

Eins og Vilhjálmur lét Larisa til sín taka á sínum fyrstu Ólympíuleikum. Hún nældi í fern gullverðlaun, ein silfurverðlaun og ein bronsverðlaun á leikunum. Ásamt Agnesi Keleti frá Ungverjalandi var hún atkvæðamesta fimleikakona leikanna.

Fyrstu ólympíuverðlaun Latininu komu á leikunum í Melbourne 1956.
Fyrstu ólympíuverðlaun Latininu komu á leikunum í Melbourne 1956.

Larisa fylgdi þessum árangri vel eftir og frammistaða hennar á næstu árum undirstrikaði að hún var besta fimleikakona heims. Á HM 1958 keppti hún í sex greinum og vann fimm þeirra og fékk silfur í þeirri sjöttu. Lét hún ekki smáatriði trufla sig eins og þá staðreynd að hún var komin fjóra mánuði á leið. Hélt hún ásigkomulagi sínu reyndar leyndu þar til að mótinu loknu.

Vann ávallt til verðlauna á ÓL

Sovétmenn gerðu miklar kröfur til þessarar fimleikastjörnu sinnar þegar kom að Ólympíuleikunum árið 1960 í Róm. Hún stóð undir þeim og fékk sex verðlaun. Þrjú gull, tvö silfur og eitt brons. Hún sigraði í fjölþraut eins og 1956 og leiddi lið Sovétríkjanna aftur til sigurs í liðakeppninni.

Árangur hennar á Ólympíuleikum var með ólíkindum eins og nefnt er hér að ofan. Larisa keppti á þrennum leikum og var einnig með í Tókýó árið 1964. Þar fékk hún tvenn gullverðlaun, tvenn silfurverðlaun og tvenn bronsverðlaun. Hún vann því til verðlauna í öllum átján greinunum sem hún tók þátt í á leikunum þrennum. Níu gullverðlaun hennar eru það næstmesta í sögunni en því deilir hún með Paavo Nurmi frá Finnlandi og Bandaríkjamönnunum Mark Spitz og Carl Lewis.

Ofan á þetta bætist að hún státar einnig af níu gullverðlaunum frá HM og alls fjórtán verðlaunum frá fjórum heimsmeistaramótum. Hún keppti þrívegis á EM og þar tókst henni að safna saman sjö gullverðlaunum og fjórtán verðlaunum alls.

Latinina var var besta fimleikakona heims um árabil.
Latinina var var besta fimleikakona heims um árabil.

Viðstödd þegar metið féll

Met hennar yfir fjölda verðlauna á Ólympíuleikum var lífseigt en féll loks í ólympíulauginni í London árið 2012 þegar Michael Phelps komst fram úr henni. Hann lét loks staðar numið með tuttugu og þrenn verðlaun og verður fróðlegt að sjá hversu lengi það met mun standa.

Larisa Latinina var viðstödd þegar Phelps sló metið ásamt dóttur sinni Tatjönu. Ólympíuhreyfingin lét þar sér úr greipum ganga möguleikann á skemmtilegu augnabliki. Larisa var tilbúin til þess að veita Phelps nítjándu verðlaunin og óska honum til hamingju með metið um leið. Vitaskuld tókst að klúðra því með púrítanisma og skriffinnsku þar sem ekki sé gert ráð fyrir slíku í mótshaldi Ólympíuleika. Ævintýralegt klúður og íþróttaunnendur misstu þar af vasaklútaaugnabliki.

Á leikunum í London var eftir Larisu haft í fjölmiðlum að Phelps hefði átt skilið að ná metinu. Hann væri slíkum hæfileikum gæddur.

Larisa Latinina fór út í þjálfun og naut þar einnig …
Larisa Latinina fór út í þjálfun og naut þar einnig velgengni.

Áframhaldandi velgengni

Larisa Latinina kom víða við í fimleikaheiminum þegar keppnisferlinum sleppti en HM í Dortmund árið 1966 var hennar síðasta mót. Við tók landsliðsþjálfarastaða hjá sovéska fimleikalandsliðinu sem hún sinnti fram á það herrans ár 1977. Larisa virðist ekki hafa verið mikið síðri þjálfari en undir hennar stjórn sigruðu sovésku konurnar í liðakeppni Ólympíuleikanna 1968, 1972 og 1976. Í framhaldinu sá hún um skipulagningu fimleikakeppninnar á Ólympíuleikunum í Moskvu árið 1980.

Þótt fædd sé á úkraínskri grundu er Larisa Latinina rússneskur ríkisborgari og býr í bænum Semjonov í vesturhluta Rússlands. Latinina giftist þrívegis og eignaðist son auk fyrrnefndrar dóttur sem var með í för sem fóstur á HM 1958.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu hinn 28. febrúar 2019

mbl.is

Bloggað um fréttina