Bölvað basl að taka næsta skref

Ingvar Þór Jónsson er fyrirliði íslenska karlalandsliðsins í íshokkí.
Ingvar Þór Jónsson er fyrirliði íslenska karlalandsliðsins í íshokkí. Ljósmynd/ÍHÍ.is

Akureyringurinn Ingvar Þór Jónsson, 38 ára, hefur spilað alla 103 landsleiki Íslands í íshokkíi frá upphafi og er fyrirliði íslenska karlalandsliðsins. Ingvar verður í eldlínunni með landsliðinu sem hefur leik í undankeppni Ólympíuleikanna 2022 sem fram fara í Peking í Kína á fimmtudaginn kemur. Landsliðið mætir þá Rúmeníu, Ísrael og Kirgistan í 2. umferð undankeppninnar en leikið er í Brasov í Rúmeníu og telur Ingvar möguleika liðsins nokkuð góða.

„Það er alltaf erfitt að meta þessa mótherja okkar svona fyrirfram. Maður veit aldrei með hvaða mannskap þessi lið mæta og eins þá sér maður lítið af þessum liðum svona dagsdaglega. Við höfum ekki aðgang að nýlegum myndbandsupptökum af leikjum þessara liða þannig að við erum að renna aðeins blint í sjóinn eins og venjulega. Ég hef aldrei séð Kirgistan spila og þeir eru alveg óskrifað blað. Við höfum mætt Ísrael nokkrum sinnum og leikirnir gegn þeim hafa alla jafna verið mjög jafnir í gegnum tíðina. Rúmenarnir eiga að vera sterkastir á pappír en samt sem áður hefur okkur gengið ágætlega á móti þeim og við unnum þá til að mynda í síðasta leik sem við spiluðum við þá. Ég tel möguleika okkar þess vegna ágæta en að sama skapi verður þetta mjög erfitt og krefjandi verkefni.“

Ingvar Þór í leik með SA síðasta vetur en SA …
Ingvar Þór í leik með SA síðasta vetur en SA eru ríkjandi Íslandsmeistarar í íshokkí karla. mbl.is/Þórir Tryggvason

Má lítið út af bera

Ingvar viðurkennir að það sé erfitt fyrir íslenska karlalandsliðið að taka skref fram á við í íþróttinni þar sem iðkendafjöldinn í íþróttinni hafi ekki verið mikill undanfarin ár.

„Það er alveg óhætt að segja það að þetta hefur verið erfitt, meðal annars því þetta er svo lítið sport á Íslandi. Það má þess vegna mjög lítið út af bera svo það hafi ekki bein áhrif á frammistöðu landsliðsins á alþjóðavettvangi. Breiddin í landsliðshópnum er lítil og við erum með þrjú íshokkífélög á Íslandi. Að sama skapi eigum við núna nokkra unga leikmenn sem spila erlendis þannig að þetta er á réttri leið. Það er samt sem áður bölvað basl fyrir okkur að taka næsta skref ef svo má að orði komast. Það vantar fleiri iðkendur á Íslandi en við höfum hins vegar haldið vel utan um starfið fyrir norðan sem dæmi, þótt það megi alltaf gera betur. Við þurfum hæfa þjálfara og fjölbreyttari keppnir til þess að taka næsta skref, því þetta verður einhæft þegar þú ert alltaf að keppa við sömu liðin.“

Ingvar spilaði sinn fyrsta landsleik árið 1999 fyrir tuttugu árum og viðurkennir að margt hafi breyst frá þeim tíma.

Ingvar Þór Jónsson hefur spilað alla 103 landsleiki Íslands frá …
Ingvar Þór Jónsson hefur spilað alla 103 landsleiki Íslands frá upphafi. Ljósmynd/ÍHÍ

Styttist í annan endann

„Það er varla hægt að segja frá því hvernig þetta var fyrstu árin hjá landsliðinu. Það hefur hins vegar verið mikil stígandi í þessu þegar kemur að til dæmis umgjörð, undanfarin áratug. Það er hins vegar ekki hægt að horfa fram hjá þeirri staðreynd að við erum áhugamenn, ekki atvinnumenn, og umgjörðin hefur verið í takt við það. Þess vegna er ekki hægt að eyða endalausum tíma í undirbúning þegar menn eru á fullu í vinnu með fjölskyldur í þokkabót.“

Eins og áður sagði er Ingvar orðinn 38 ára gamall og hefur ekki misst af landsleik í tuttugu ár en hann viðurkennir að það styttist í annan endann á landsliðsferlinum.

„Óhjákvæmilega er maður farinn að huga að því að endastöðin nálgast. Ég er fjölskyldumaður með þrjú börn og þetta hefur verið smá púsluspil í gegnum tíðina. Að sama skapi er konan líka á fullu í sportinu þannig að þessu er sýndur fullur skilningur heima fyrir og ég fæ mikinn stuðning þar. Hún er landsliðsmaður í íshokkíi líka og við erum með gott bakland sem hjálpar okkur þegar mest á reynir í ferðalögum og öðru. Sjálfur hefur ég verið tæpur í baki að undanförnu og það gæti því endað með því að maður fari að missa af einhverjum leikjum. Ég stefni hins vegar að því að klára þennan vetur og sjá svo til með framhaldið.,“ sagði Ingvar í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert