„Við fengum mikið pláss“

Ólafur Hrafn Björnsson var marksækinn gegn Kirgistan.
Ólafur Hrafn Björnsson var marksækinn gegn Kirgistan. Ljósmynd/Sorin Pana

Ólafur Hrafn Björnsson skoraði fjögur mörk þegar Ísland vann Kirgistan 9:4 í undankeppni Vetrarólympíuleikanna í íshokkí í Rúmeníu í dag.

Spurður um hvort ekki sé ljúf tilfinning að skora fjögur mörk í landsleik sagðist Ólafur ekki geta neitað því. „Jú jú. Það er alltaf geggjað að spila landsleiki fyrir Ísland og gaman ef maður nær að skora. Ég er svo sem ekkert vanur því að skora mikið en hafði stundum heppnina með mér í dag.  Pökkurinn datt nokkrum sinnum fyrir mig og ég náði að koma honum í netið,“ sagði Ólafur en sóknarleikur Íslands var í góðu lagi í leiknum eins og úrslitin sýna.

„Okkur gekk vel að opna þá en þeir eru góðir margir hverjir. Geta spilað hratt og skoruðu fjögur mörk. En við fengum hins vegar mikið pláss og áttum að vinna þennan leik eins og við gerðum. Við vissum voða lítið um þá. Þeir hafa spilað töluvert í mótum í Asíu sem ég þekki lítið en en við sáum eitthvað af þeim á Youtube og horfðum á æfingu hjá þeim. En þeir voru svipaðir og við bjuggumst við.“ 

Rúmenía er hæst skrifaða liðið í riðlinum. Íslendingar hafa mætt þeim nokkrum sinnum síðasta áratuginn en Rúmenía hefur þó verið af og til verið í b-deild 1. deildar á HM en Ísland í 2. deildinni. Íslenska liðið hefur auk þess gengið í gegnum mikla endurnýjun eftir að kempur á borð við Emil Alengård drógu sig út úr landsliðinu. 

„Já ég held að Rúmenar verði mjög sterkir. Verið hefur stígandi í þeirra leik síðustu þrjú eða fjögur árin og þeir eru nú tveimur deildum fyrir ofan okkur á HM. Þeir ættu að vera með mjög öflugt lið og það verður væntanlega á brattann að sækja. Við höfum þó átt nokkra góða leiki gegn þeim í gegnum tíðina. Við unnum þá til dæmis árið 2017,“ sagði Ólafur Hrafn Björnsson enn fremur við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert