Öruggur sigur Söru í Dubai

Sara Sigmundsdóttir.
Sara Sigmundsdóttir. Ljósmynd/Bára Ósk Einarsdóttir

Sara Sigmundsdóttir fór með sigur af hólmi í crossfitkeppni sem lauk í Dúbaí í dag. Hlaut hún 967 stig en Karin Frey, sem hafnaði í öðru sæti, fékk 941 stig. Samantha Briggs varð í 3. sæti. 

Eik Gylfadóttir hafnaði í 13. sæti en Katrín Tanja Davíðsdóttir neyddist til að draga sig úr keppni í upphafi móts. Björgvin Karl Guðmundsson hafnaði í fjórða sæti í karlaflokki.

Dubai Crossfit Championship er ein af undankeppnum fyrir heimsleikana sem fara fram í Madison í Bandaríkjunum í ágúst á næsta ári. Efsta sæti á mótinu tryggir þátttökuseðilinn á leikana en Sara var þegar búin að tryggja sér hann með góðum árangri á The Open, undankeppni sem allir crossfitiðkendur geta tekið þátt í.  

Þar sem Karin Frey var einnig búin að tryggja sitt sæti á heimsleikunum náði Sam Briggs að tryggja sitt sæti, en það verður í áttunda sinn sem hún tekur þátt í heimsleikunum. mbl.is