Leikur flautaður af vegna söngva um nasista

Stuðningsmenn Ray Vallecano vilja ekki sjá Úkraínumanninn Roman Zozulya á …
Stuðningsmenn Ray Vallecano vilja ekki sjá Úkraínumanninn Roman Zozulya á vellinum. AFP

Dómari flautaði af leik Rayo Vallecano og Albacete í spænsku annarri deildinni í gær eftir að stuðningsmenn Vallecano sungu söngva um meintan nasisma Roman Zoulya, leikmanns Albacete.

Zozulya gekk til liðs við Vallceno í lok janúar 2017 en yfirgaf félagið nokkrum klukkustundum síðar eftir að stuðningsmenn félagsins sökuðu hann um nasisma.

Þá biðu stuðningsmenn Vallecano eftir honum með stóra borða með áletrunum um að þetta væri ekki staður fyrir nasista. 

Zozulya heldur um höfuðið í landsleik.
Zozulya heldur um höfuðið í landsleik. AFP

Zozulya hefur ávallt neitað tengslum við öfgahópa og segir að misskilningur blaðamanns á Spáni hafi orðið til þess að stuðningsmenn Vallecano héldu að hann væri öfgamaður.

Spænska knattspyrnusambandið sagði að dómari leiksins í gær hefði tekið rétta ákvörðun en stuðningsmenn Vallecano sögðu meðal annars að Zozulya væri stuðningsmaður Hitlers.

mbl.is