Íslendingar náðu í gull og brons

Samuel Josh Ramos og Iveta Ivanova ásamt Ingólfi Snorrasyni landsliðsþjálfara.
Samuel Josh Ramos og Iveta Ivanova ásamt Ingólfi Snorrasyni landsliðsþjálfara. Ljósmynd/Karatesamband Íslands

Samuel Josh Ramos og Iveta Ivanova áttu frábæran dag er þau náðu í verðlaun á Opna Rhein Shiai-mótinu í karate í í Nurburgring-höllinni á Nurburgring í Þýskalandi. Iveta náði í gull og Samuel í brons. Yfir 1.000 keppendur tóku þátt í mótinu. 

Margt af efnilegra karatefólki Evrópu mætti á mótið og voru keppendur dregnir í riðla þar sem allir kepptu við alla og tvö efstu sætin tryggðu sæti í fjögurra til átta manna úrslitum.

Iveta Ivanova sigraði í -55 kg flokki U-21 með glæsibrag en þar atti hún kappi við keppendur frá Þýskalandi og Danmörku. Sterkasta stúlka þjóðverja, Jill Auger, var ekki með í þetta sinn vegna meiðsla en hafa þær stöllur eldað grátt silfur saman gegnum tíðina og sigraði Iveta í síðustu viðureign þeirra er þær mættust í úrslitum á sama móti í fyrra.

Samuel Josh Ramos átti einnig frábæran dag er hann sigraði í riðli sínum í -61 kg flokki, U-18, og komst þannig í átta manna úrslit í flokknum. Í undanúrslitum var Samuel óheppinn er sigurinn var dæmdur af honum eftir harða snertingu við Thomas Lucas, Þýskalandi, en Samuel var yfir í viðureigninni á þeim tíma og skammt eftir. Þriðja sætið var þannig staðreynd.

Hugi Halldórsson átti einnig sterka innkomu í -70 kg flokki U-16, er hann komst í átta manna úrslit, og Viktoría Ingólfsdóttir keppti í -60 kg flokki, U-16, og datt út með einn sigur og tvö töp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert