Mikill áhugi á miðum í milliriðla

Bjarki Már Elísson í leiknum á móti Rússum.
Bjarki Már Elísson í leiknum á móti Rússum. AFP

Handknattleikssamband Íslands hefur fengið talsvert af fyrirspurnum frá fólki sem vill sjá strákana okkar spila í milliriðlum á EM í handbolta sem nú stendur yfir.

Að sögn Róberts Geirs Gíslasonar, framkvæmdastjóra HSÍ, er áhuginn mikill. Sambandið á von á svörum síðar í dag frá mótshöldurum um hvort og hve marga miða Íslendingar geta fengið.

Slatti af miðum er til í milliriðlana og er Róbert Geir vongóður um að geta tekið frá 200 til 300 miða til að byrja með til að mæta eftirspurn.

Alexander Petersson spilaði vel gegn Rússum.
Alexander Petersson spilaði vel gegn Rússum. AFP

Á bilinu 600 til 700 Íslendingar voru á leik Íslands og Rússlands í gær og um 600 Íslendingar verða á leiknum annað kvöld gegn Ungverjum. Þessir stuðningsmenn eru ekki komnir með miða í milliriðla en hluti þeirra hefur óskað eftir miðum.

HSÍ bíður einnig eftir staðfestingu á miðaverðinu. Róbert Geir telur að miðarnir verði að minnsta kosti ekki ódýrari en miðarnir í riðlakeppnina sem kostuðu um 14 þúsund krónur.

Leikir Íslands í milliriðlum fara fram 17., 19., 21. og 22. janúar í Malmö Arena.

mbl.is