Strákarnir skoruðu tíu mörk gegn Nýsjálendingum

Úr leil Íslands og Nýja-Sjálands í Búlgaríu í dag.
Úr leil Íslands og Nýja-Sjálands í Búlgaríu í dag. Ljósmynd/Sveinn Björnsson

Strákarnir í 20 ára landsliði Íslands í íshokkí unnu stórsigur á Nýsjálendingum, 10:1, í lokaleik sínum í riðlakeppni 3. deildar heimsmeistaramótsins í þessum aldursflokki í Búlgaríu í dag.

Þeir fengu þar með 9 stig í A-riðlinum og spila í undanúrslitum við liðið sem endar í öðru sæti B-riðilsins, en þar eiga Ástralía og Tyrkland eftir að mætast í úrslitaleik í dag.

Mexíkó og Búlgaría eru með 3 stig hvort og mætast í lokaleik A-riðils en önnur þjóðanna fylgir Íslandi í undanúrslitin.

Nýsjálendingar komust yfir strax á 2. mínútu leiksins. Tveimur mínútum síðar höfðu Heiðar Kristveigarson og Axel Orongan komið Íslandi í 2:1 og þeir Atli Sveinsson og Axel bættu við mörkum áður en fyrsta leikhluta lauk, 4:1.

Axel gerði sitt þriðja mark og kom Íslandi í 5:1 í byrjun annars leikhluta og Halldór Skúlason bætti við marki, 6:1, áður en honum lauk.

Í síðasta leikhlutanum skoruðu síðan Einar Grant, Heiðar Kristveigarson, Unnar Rúnarsson og Gunnar Arason sitt markið hver.

mbl.is