Besti árangur Snorra í vetur

Snorri Einarsson í Tékklandi í dag.
Snorri Einarsson í Tékklandi í dag. Ljósmynd/Skíðasamband Íslands

Snorri Einarsson, landsliðsmaður í skíðagöngu, var meðal keppenda í heimsbikarnum í Novo Mesto í Tékklandi en þar náði hann sínum besta árangri í vetur. Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu Skíðasambands Íslands.

Aðstæður voru krefjandi í dag og þá snjóaði mikið en Snorri endaði engu að síður í 35. sæti, aðeins 14 sekúndum frá 30. sætinu sem er síðasta sætið til að gefa heimsbikarstig.

Árangur Snorra í vetur hefur farið stigvaxandi og á morgun fer fram 15 kílómetra eltiganga með hefðbundinni aðferð á sama stað. Keppni hefst klukkan 12 að íslenskum tíma en Snorri mun vera 35. keppandinn til að hefja leik þar sem ræst er út eftir úrslitum dagsins í dag.

mbl.is