Grunaður um tilræði gegn fyrrum samherja

Darko Kovacevic í leik með Real Sociedad á Spáni.
Darko Kovacevic í leik með Real Sociedad á Spáni. AFP

I serbneska fjölmiðlinum Telegraf er því haldið fram að Raul Bravo, fyrrverandi leikmaður Real Madrid og Leeds, hafi staðið á bak við tilræðið á hendur Darko Kovacevic í janúar. 

Kovacevic komst naumlega undan skotárás í Aþenu í janúar og slapp lítillega slasaður eins og mbl.is greindi frá.

Ekki kemur fram hvaða ástæða kunni að búa að baki hjá Bravo en hann og Kovacevic eru fyrrverandi samherjar hjá Olympiacos í Grikklandi. Í fréttinni er því haldið fram að Bravo liggi undir grun hjá rannsakendum um að hafa ráðið leigumorðingja til verksins.

Spánverjinn Raul Bravo hefur komist í kast við lögin að undanförnu en hann er 38 ára gamall og lék síðast knattspyrnu árið 2017 með Aris. Hann náði hins vegar langt í íþróttinni og vann Meistaradeildina með Real Madrid auk þess að leika 14 A-landsleiki fyrir Spán. 

Bravo var í maí síðastliðinn handtekinn og sakaður um að vera höfuðpaurinn í máli sem upp kom vegna gruns um hagræðingu úrslita á Spáni. El Mundo flutti auk þess af því fréttir að Bravo hefði haft í hótunum við forseta spænska félagsins Huesca. 

Raul Bravo hinn hressasti (15) í leik með Spáni á …
Raul Bravo hinn hressasti (15) í leik með Spáni á EM 2004. Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert