Leikstjórnandinn lætur gott heita

Eli Manning er að leggja skóna á hilluna eftir sextán …
Eli Manning er að leggja skóna á hilluna eftir sextán ára farsælan feril. AFP

Eli Manning, leikstjórnandi New York Giants í bandarísku NFL-deildinni í ruðningi, hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna en það eru fjölmiðlar vestanhafs sem greina frá þessu. Samkvæmt fjölmiðlum í Bandaríkjunum mun Manning tilkynna um ákvörðun sína á morgun en fjölmiðlar hafa nú þegar fengið tilkynningu þess efnis að Manning sé að hætta eftir sextán ára feril.

Manning hefur allan sinn feril leikið með New York Giants en hann varð 39 ára gamall 3. janúar. Manning hefur tvívegis orðið NFL-meistari, árin 2008 og 2012. Í báðum ofurskálarleikjunum lagði New York Giants lið New England Patriots að velli en Manning var kosinn besti leikmaður ofurskálarleikjanna í bæði skiptin.

Manning var ekki í stóru hlutverki hjá Giants á þessari leiktíð en hann missti sæti sitt í liðinu til nýliðans Daniel Jones. Jones er 22 ára gamall og var að klára sitt fyrsta tímabil með liðinu þar sem hann stóð sig vel. Það var því fátt sem benti til þess að Manning væri að fara spila mikið á næstu leiktíð og hann ákvað því að kalla þetta gott.

mbl.is