Heimsmeistaramóti frestað

Dina Asher-Smith er heimsmeistari í 200 metra hlaupi og silfurverðlaunahafi …
Dina Asher-Smith er heimsmeistari í 200 metra hlaupi og silfurverðlaunahafi í 100 metra hlaupi frá því í Doha í haust. AFP

Heimsmeistaramótinu í frjálsum íþróttum innanhúss hefur verið frestað um eitt ár en til stóð að mótið færi fram um miðjan mars á þessu ári í Nanjing í Kína. 

Ástæðan fyrir frestuninni er vitaskuld kórónaveiran sem dregið hefur130 manns til dauða og er talin eiga upptök sín í Wuhan sem er tæplega 600 kílómetra frá Nanjing. 

Alþjóðafrjálsíþróttasambandið leitaði ráða hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni áður en ákvörðunin var tekin. Sambandið hafnaði tilboðum frá öðrum borgum um að hlaupa í skarðið og halda mótið í vetur samkvæmt BBC. Töldu forráðamenn sambandsins að gestgjafarnir í Nanjing hefðu lagt það mikla vinnu í mótshaldið að eðlilegt væri að þeir fengju að halda mótið þótt síðar verði. 

Ekki hefur verið ákveðin dagsetning árið 2021 en innanhússtímabilið er iðulega út mars. HM innanhúss er haldið annað hvert ár og EM innanhúss annað hvert ár. Útlit er því fyrir tvö stórmót innanhúss snemma árs 2021. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert