Frestun á Ólympíuleikunum ekki í bígerð

Toshiro Muto, annar frá hægri, ræðir við fréttamenn.
Toshiro Muto, annar frá hægri, ræðir við fréttamenn. AFP

Ekki hefur komið til tals að fresta eða aflýsa Ólympíuleikunum í Tókýó í sumar vegna COVID-19-veirunnar sem nú herjar á nágranna Japana í vestri, Kínverja, og hefur fellt á annað þúsund manns þar í landi.

Leikarnir eiga að hefjast 24. júlí og forseti undirbúningsnefndarinnar, Toshiro Muto, sagði fyrr í þessum mánuði að skipuleggjendur þeirra hefðu miklar áhyggjur af því að útbreiðsla veirunnar gæti haft mikil áhrif á undirbúning leikanna.

„Ég vil ítreka á afdráttarlausan hátt að frestun eða aflýsing á leikunum í Tókýó hefur ekki  verið rædd,“ sagði Muto á fréttamannafundi í japönsku höfuðborginni í morgun.

John Coates, stjórnarmaður í Alþjóðaólympíunefndinni, sagði við BBC að hann biði eftir nánari upplýsingum frá skipuleggjendum um hvernig þeir hygðust starfa með stjórnvöldum í Japan og Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni, WHO, til að tryggja að allt íþróttafólk og aðrir sem kæmu til Japans vegna leikanna væri öruggt, og að allar mögulegar öryggisráðstafanir væru gerðar.

Nokkrum stórum íþróttaviðburðum hefur þegar verið aflýst vegna veirunnar, þar á meðal kínverska Grand Prix-kappakstrinum sem fram átti að fara í apríl, heimsmeistaramótinu í frjálsíþróttum innanhúss og tveimur mótum í LPGA-mótaröð kvenna í golfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert