Biðst afsökunar á að kalla Þrótt „lúseraklúbb“

Sindri Snær Jensson í leik með KR. Markvörðurinn hefur beðist …
Sindri Snær Jensson í leik með KR. Markvörðurinn hefur beðist afsökunar á orðavali sínu í hlaðvarpsþætti, þar sem hann kallaði uppeldisfélagið Þrótt „smá lúseraklúbb“ miðað við KR. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Stuðningsmenn Þróttar í Reykjavík urðu sárir út í Sindra Snæ Jensson, fyrrverandi knattspyrnumarkvörð, vegna orða sem Sindri lét falla í hlaðvarpsþættinum Steve Dagskrá í gær. Sindri Snær hefur nú beðist afsökunar á orðum sínum.

Sindri Snær, sem er uppalinn í Laugardalnum og iðkaði knattspyrnu með Þrótti um langt skeið áður en hann söðlaði um og lék með Val og KR, sagði að Þróttur væri „smá lúseraklúbbur“ miðað við KR og þau ummæli voru til umfjöllunar á vef DV í morgun.

„Krafan um árangur er eitthvað sem ég dýrkaði, ég kem úr Þrótti. Með fullri virðingu, þá er það smá lúseraklúbbur. Við töpuðum þar og þá var bara sagt að þetta kæmi næst. Í KR er bara gaur að öskra á mig á bílastæðinu, af hverju ég hafi ekki varið þetta skot. Fólk er reitt,“ hafði DV eftir Sindra Snæ úr hlaðvarpsþættinum og þessi ummæli fóru þvert í Köttara, eins og stuðningsmenn Þróttar í Reykjavík kalla sig.

Fékk orð í eyra á Facebook

Einn þeirra er Jón Ólafsson tónlistarmaður. Hann ritaði á Facebook í morgun að ef það sé „lúseraháttur að standa með sínu liði í blíðu og stríðu“, þá sé hann „lúser“.

Jón Ólafsson ritaði á Facebook í morgun að ef það …
Jón Ólafsson ritaði á Facebook í morgun að ef það er „lúseraháttur að standa með sínu liði í blíðu og stríðu“, þá sé hann „lúser“. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ég hætti ekki að mæta á völlinn þó það gefi á bátinn (það var að verða tóm stúkan hjá KR fyrir 2 árum á heimaleikjum mfl.karla) Ég froðufelli ekki á leikmenn þó þeir geri mistök. Ef það er lúseraháttur, þá er ég lúser. Köttarar styðja Þrótt í blíðu og stríðu en mæta ekki bara á völlinn þegar vel gengur,“ ritaði Jón í færslu á Facebook í morgun, en þaðan er færslan nú horfin.

Undir þetta tóku þó nokkrir, þeirra á meðal Stefán Hrafn Hagalín, upplýsingafulltrúi og Köttari.

„Með „fullri virðingu“, Sindri Snær? Segðu bara eins og er næst: Með „ENGRI virðingu“! Jesús. Elska hreina íslensku og Sindra vin minn, en þarna er gamli skólinn að drulla upp á bak,“ skrifaði Stefán Hrafn.

Meiningin ekki að vanvirða Þrótt

Sindri Snær var ekki lengi að bregðast við þessum ummælum Jóns og Stefáns og segir greinilegt að hann hafi ekki valið orð sín vel og „farið heldur geyst“ í samtali við þáttarstjórnendur Steve Dagskrá.

„Eftir hlustun er skýrt að ég kom þessu ekki vel frá mér. Meiningin var ekki að vanvirða Þrótt og ég biðst afsökunar,“ skrifaði Sindri Snær í athugasemd við færslu Jóns, sem er sem áður segir, ekki lengur aðgengileg.

Sindri Snær hefur nú einnig beðist afsökunar á orðavali sínu á Twitter. Þar segir hann að gott starf sé unnið í Laugardalnum, þótt honum hafi „þótt vanta upp á ýmislegt“.





mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert