Gerðu byssu skíðaskotfimikappa á nærbuxunum upptæka

Alexander Loginov.
Alexander Loginov. AFP

Undirbúningur rússneska skíðaskotfimikappans Alexanders Loginov fyrir HM í skíðaskotfimi komst heldur betur í uppnám í dag er ítalska lögreglan réðst inn á hótelherbergi kappans aðeins örfáum tímum áður en hann átti að taka þátt í boðgöngu karla. Frá þessu er greint í rússneskum miðlum, á vefsíðu norska blaðsins VG og á danska miðlinum BT.

Loginov hefur sjálfur staðfest að umrætt atvik hafi átt sér stað. Lögreglan réðst inn á herbergi kappans kl. 6 í morgun en skíðaskotfimin fer fram í Antholz á Ítalíu.

„Þeir gerðu símann minn, tölvuna og nokkra aðra persónulega muni upptæka,“ sagði Loginov.

„Þeir tóku vopnin okkar, eins og við værum hættulegir glæpamenn. Svo báðu þeir okkur um að sitja á nærbuxunum,“ er haft eftir Loginov í danska miðlinum BT en einnig var leitað í herbergi þjálfara hans, Alexander Kasperovitsj.

Samkvæmt rússneska miðlinum R-sport leikur grunur á að Kasperovitsj hafi notfært sér skráningarvottorð annars einstaklings fyrir HM. Það skráningarvottorð er talið að þjálfarinn hafi notað til þess að smygla inn ólöglegum lyfjum á heimsmeistaramótið.

Bæði þeir Loginov og Kasperovitsj eru grunaðir um brot gegn lyfjareglum mótsins. Loginov vísar þessu öllu á bug og er æfur yfir atvikinu.

Alþjóðaskíðaskotfimisambandinu er kunnugt um málið en forseti þess, Olle Dahlin, vildi ekki tjá sig mikið um atvikið.

„Ég hef ekki fengið upplýsingar um málið. En ég hef fengið fjöldann allan af fyrirspurnum frá rússneskum miðlum. Við reynum núna að komast til botns í þessu máli en ég hafði vonað að við slyppum við svona fréttir,“ er haft eftir Dahlin í frétt BT.

Loginov, sem heldur á gullmedalíu í sprettgöngu, átti að keppa í boðgöngu karla síðar í dag, en hann hefur áður verið dæmdur fyrir að hafa notað lyfið erythropoiet­in (EPO).

mbl.is