Stórt tap í fyrsta leiknum

Sunna Björgvinsdóttir skorar fyrir Ísland í leiknum í kvöld.
Sunna Björgvinsdóttir skorar fyrir Ísland í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Kvennalandslið Íslands í íshokkí lék fyrsta leik sinn í 2. deild B á heimsmeistaramótinu í kvöld. Riðillinn er allur spilaður á Akureyri og fer vel á því þar sem vagga kvennahokkísins er í bænum og stór hluti leikmanna hefur alist upp á svellinu með Skautafélagi Akureyrar.

Andstæðingur kvöldsins var Ástralía en Ástralar voru deild ofar í fyrra og því engin lömb að leika sér við. Leikurinn byrjaði nokkuð rólega og ef eitthvað var þá var Ísland líklegra liðið til að skora.

Ástralía skoraði hins vegar fyrsta markið strax á 4. mínútu og áður en fyrsti leikhlutinn var liðinn voru komin þrjú mörk í viðbót. Segja má að öll mörk Ástrala hafi verið keimlík. Þau voru skoruð af stuttu færi eftir að pökkurinn hafði borist beint í kylfur andfætlinga, ýmist þegar pökkurinn var varinn eða hrökk af einhverjum leikmanna Íslands.

Heimakonur áttu nokkur skot á markið en allt kom fyrir ekki. Sóknir Íslands byggðust á hraða og leikni en leikmenn brunuðu oft einir í gegnum vörn Ástrala og vantaði aðstoð.

Annar leikhluti byrjaði skelfilega hjá Íslandi og Ástralar skoruðu tvívegis, mjög svo ódýr mörk. Staðan var þá orðin 6:0 og íslensku stelpurnar í tómu tjóni. Kolbrún María Garðarsdóttir sýndi alvörukeppnisskap á milli markanna og lenti í slagsmálum á svellinu. Þar var tónninn gefinn fyrir framhaldið hjá íslenska liðinu. Liðið barðist mun betur út leikhlutann og sýndi mikla fórnfýsi framan við eigið mark þar sem Birta Júlía Helgudóttir stóð í ströngu á köflum.

Þegar leið á leikhlutann færðu íslensku valkyrjurnar sig upp á skaftið og litlu munaði að þær skoruðu. Á endanum tókst það þegar Sunna Björgvinsdóttir setti pökkinn í markið eftir nokkuð þunga sókn. Staðan var því 6:1 fyrir lokakaflann.

Fátt markvert gerðist í lokaleikhlutanum en Ísland var mun ágengara liðið og hefði átt að bæta við mörkum. Lokatölur urðu því 6:1.

Á morgun kl. 20 á Ísland leik gegn Ný-Sjálendingum sem unnu Króata 11:1 í dag. Tyrkland vann Úkraínu 3:2 í framlengdum leik í fyrstu viðureign dagsins.

Mörk/stoðsendingar:

Ísland: Sunna Björgvinsdóttir 1/0, Silvía Rán Björgvinsdóttir 0/1, Saga Blöndal 0/1.

Ástralía: Michelle Clark-Crumpton 2/0,  Shona Green 2/0, Tess Reynolds 1/0, Natalie Ayris 1/2, Eiland Keynon 0/1, Georgia Moore 0/1, Ashlie Aparicio 0/1, Natasha Farrier 0/2.

Refsimínútur:  Ísland: 12 mín. Ástralía: 8 mín.

Ísland 1:6 Ástralía opna loka
60. mín. Leik lokið Súrt tap eftir fína frammistöðu í seinni tveimur leikhlutunum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert