Sextán ára piltur sló 23 ára gamalt met í Kaplakrika

Kristján Viggó Sigfinnsson stekkur yfir 2,15 metra á mótinu í …
Kristján Viggó Sigfinnsson stekkur yfir 2,15 metra á mótinu í dag. mbl.is/Sigurður Ragnarsson

Kristján Viggó Sigfinnsson, sextán ára gamall Ármenningur, sló í dag 23 ára gamalt piltamet í hástökki innanhúss þegar hann sigraði í greininni á Meistaramóti Íslands í frjálsíþróttum innanhúss í Kaplakrika með því að stökkva yfir 2,15 metra.

Fyrra metið, í flokki 17 ára og yngri, setti Einar Karl Hjartarson árið 1997, á þessu sama móti í Hafnarfirði, þegar hann stökk 2,12 metra.

Kristján Viggó fór yfir 2,15 metra í annarri tilraun og átti síðan þrjár tilraunir við 2,17 metra sem ekki tókust. Hann hafði mikla yfirburði í greininni og var 30 sentimetrum á undan næsta manni, Árna Birni Höskuldssyni úr FH.

Þórdís Eva Steinsdóttir úr FH vann sína aðra grein þegar hún sigraði í 200 metra hlaupi kvenna á 24,84 sekúndum en Agnes Kristjánsdóttir úr ÍR varð önnur á 25,01 sekúndum. Arna Stefanía Guðmundsdóttir úr FH, sem sneri aftur eftir nokkurt hlé, varð þriðja á 25,86 sekúndum. Þórdís vann 400 metra hlaupið í gær.

Hafdís Sigurðardóttir í langstökkinu í dag.
Hafdís Sigurðardóttir í langstökkinu í dag. mbl.is/Sigurður Ragnarsson

Hafdís Sigurðardóttir úr UFA vann líka tvöfalt en hún sigraði í langstökkinu í dag með talsverðum yfirburðum eftir að hafa unnið 60 metra kvenna í gær. Hafdís stökk 6,14 metra og fór yfir sex metrana í fjórum stökkum af sex.

Arnar Pétursson vann tvær greinar um helgina.
Arnar Pétursson vann tvær greinar um helgina. mbl.is/Sigurður Ragnarsson

Arnar Pétursson úr Breiðabliki vann sína aðra grein þegar hann sigraði í 3.000 metra hlaupi á 8:42,46 mínútum og var rúmri mínútu á undan næsta manni. Arnar sigraði í 1.500 m hlaupinu í gær.

Ísak Óli Traustason úr UMSS náði að sigra hinn margfalda Íslandsmeistara í langstökki karla, Kristin Torfason úr FH, eftir hörkukeppni. Ísak stökk 6,90 metra en Kristinn 6,87 metra.

Ísak Óli fékk sín önnur gullverðlaun í dag þegar hann sigraði í 60 metra grindahlaupi karla þar sem hann hljóp á 8,42 sekúndum.

Ari Bragi Kárason vann tvöfalt og kemur hér í mark …
Ari Bragi Kárason vann tvöfalt og kemur hér í mark í 60 metra hlaupinu í gær. Hann vann 200 metrana í dag. mbl.is/Sigurður Ragnarsson

Ari Bragi Kárason úr FH fylgdi eftir sigrinum í 60 metra hlaupi karla í gær með því að vinna 200 metra hlaup í dag á 22,11 sekúndum, aðeins 1/100 úr sekúndu á undan Kormáki Ara Hafliðasyni úr FH.

María Rún Gunnlaugsdóttir sigraði bæði í kúluvarpi og 60 m …
María Rún Gunnlaugsdóttir sigraði bæði í kúluvarpi og 60 m grindahlaupi. mbl.is/Sigurður Ragnarsson

María Rún Gunnlaugsdóttir úr FH sigraði í kúluvarpi kvenna þar sem hún náði sínum besta árangri, 12,82 metum.

María Rún sigraði líka í 60 metra grindahlaupi kvenna á 8,82 sekúndum.

Ingibjörg Sigurðardóttir úr ÍR, 18 ára, sigraði í 800 metra hlaupi kvenna á 2:16,87 mínútum sem er hennar besti árangur, og var tæpum fimm sekúndum á undan Elínu Sóleyju Sigurbjörnsdóttur úr FH. Fríða Rún Þórðardóttir úr ÍR, sem er nýorðin fimmtug, varð þriðja.

Sæmundur Ólafsson úr ÍR sigraði í 800 metra hlaupi karla á 1:56,35 mínútu en Kjartan Óli Ágústsson, 17 ára, úr Fjölni varð annar á 1:58,76 mínútu.

Karen Sif Ársælsdóttir úr Breiðabliki sigraði í stangarstökki kvenna en hún stökk 3,30 metra.

Andrea Kolbeinsdóttir úr ÍR sigraði í 3.000 metra hlaupi kvenna á 10:00,20 mínútum.

FH sigraði í stigakeppni félaganna með 54,5 stig og ellefu gullverðlaun. Í öðru sæti varð ÍR með 45,5 stig og fern gullverðlaun og í þriðja sæti varð Breiðablik með 23 stig og fjögur gull.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert