Þetta gerist stundum

Jón Benedikt Gíslason landsliðsþjálfari fylgist með leiknum í kvöld.
Jón Benedikt Gíslason landsliðsþjálfari fylgist með leiknum í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Jón Benedikt Gíslason, aðalþjálfari íslenska kvennalandsliðsins í íshokkí, stendur í ströngu þessa dagana en HM kvenna fer fram á Akureyri alla þessa viku. Ísland spilaði fyrsta leik sinn í B-riðli 2. deildar í kvöld og steinlá, 6:1 gegn Ástralíu, eftir martraðarbyrjun í leiknum.

Ástralía var komin í 6:0 eftir 25 mínútur og féll hreinlega allt fyrir gestina á meðan mikið bras og basl var í vörn Íslands.

Sæll Jón. Hvað fékkstu marga daga með liðið fyrir þetta mót?

„Við erum búin að vera saman í átta daga. Við fórum í æfingaferð til Svíþjóðar um síðustu helgi og svo fengum við þær tvo daga hérna heima. Svo hófst undirbúningur hérna á miðvikudaginn.“

Og hvernig fannst þér til takast í kvöld. Átti þetta ekki að vera jafnari leikur?

„Mjög illa, í rauninni. Þessi leikur hefði átt að vera jafn. Byrjunin hjá okkur var eins slæm og hægt var að hugsa sér. Það lenti allt þeirra megin og við lentum í bölvuðum vandræðum. Það fór bara allt inn hjá þeim. Við vissum að lið Ástrala væri sterkt og það hefur verið mun hærra en við á heimslistanum. Þetta er sterkt lið með gríðarlega reynslu. Við hefðum þurft toppleik á móti þeim en byrjunin fór alveg með okkur. Loks þegar við fórum að sýna okkar rétta andlit og spila okkar leik þá var það orðið of seint. Við fengum alveg færin en pökkurinn vildi ekki inn. Liðin áttu álíka mörg færi og skot á mark þannig að þetta er svekkjandi niðurstaða.“

Sarah Smiley á fullri ferð í leiknum gegn Ástralíu í …
Sarah Smiley á fullri ferð í leiknum gegn Ástralíu í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason


Getur þú útskýrt þessa byrjun á leiknum. Spenna, reynsluleysi?

„Þetta var bara einn af þessum leikjum þar sem ekkert gengur og nákvæmlega þetta gerist. Það er svona einn á móti hundrað að maður lendi í leik þar sem allt dettur inn hjá hinu liðinu. Það er engin sérstök ástæða fyrir því. Þetta gerist stundum. Við upplifðum það í kvöld.“

Það er spilað stíft á þessum mótum og næsti leikur er annað kvöld gegn Ný-Sjálendingum. Má ekki búast við hörkuleik?

„Þær eru í svipuðum styrkleika og við. Við töpuðum með einu marki gegn þeim í fyrra og eigum harma að hefna. Liðin hafa skipst á að sigra í gegnum árin. Ég reikna því með jöfnum leik. Við munum sjálfsagt breyta einhverjum áherslum fyrir leikinn en aðalmálið er að spila okkar leik og þá eigum við að vera með bestu liðunum á þessu móti.“

Sunna Björgvinsdóttir skoraði mark Íslands og var vel fagnað.
Sunna Björgvinsdóttir skoraði mark Íslands og var vel fagnað. Ljósmynd/Þórir Tryggvason


Nú langar mig að forvitnast aðeins um íverustað ykkar meðan á mótinu stendur. Liðið er allt saman á hóteli í stað þess að dreifa sér um bæinn á eigin heimilum eða hjá ættingjum.

„Við erum úti í Sveinbjarnargerði og höldum vel utan um liðið þar. Þá erum við laus við utanaðkomandi áhrif. Við þurfum að hafa þetta svona þegar við erum á heimavelli. Þá erum við á jafnréttisgrunni við hin liðin.“

Þannig að þær fjölmörgu mæður, sem eru í liðinu fá gott frí frá öllum erli hversdagslífsins?

„Já. Þær þurfa ekki að sinna neinu öðru en landsliðinu meðan á mótinu stendur. Við erum með sjö mæður í liðinu og venjulega í nógu að snúast hjá þeim eins og hinum leikmönnunum. Þetta er bara gott orlof fyrir þær. Líklega einu alvöruorlofin sem þær fá,“ sagði Jón Benedikt að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert