Öruggt gegn Nýja-Sjálandi

Silvía Björgvinsdóttir skorar annað mark Íslands í kvöld.
Silvía Björgvinsdóttir skorar annað mark Íslands í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Það var stuð í Skautahöllinni á Akureyri í kvöld þegar Ísland og Nýja-Sjáland áttust við í hörkuleik á HM í íshokkí kvenna. Ísland tapaði illa í gær, 6:1 á móti Ástralíu. Ný-Sjálendingar rúlluðu hins vegar yfir Króata 11:1 og voru því funheitir og til alls líklegir. Ísland var hins vegar sterkara liðið og vann 4:1. 

Ísland mætti af fullum þunga inn í leikinn og frá fyrstu mínútu var nánast bara spilað á vallarhelmingi Nýja-Sjálands. Nokkur ágæt færi buðust en lítið gekk að skora þar til stíflan brast á 15. mínútu. Þá slapp Sunna Björgvinsdóttir ein inn fyrir vörn Nýja-Sjálands. Hún afgreiddi pökkinn af öryggi í netið og skömmu síðar var staðan orðin 2:0.

Silvía Rán Björgvinsdóttir setti pökkinn í netið eftir þunga sókn. Við þessi mörk fóru gestirnir að bíta frá sér og aðeins Birta Júlía Helgudóttir í marki Íslands kom í veg fyrir mark eða mörk. Hún varði í það minnsta tvisvar úr algjörum dauðafærum Ný-Sjálendinga. Staðan var því 2:0 eftir fyrsta leikhlutann og allt í blóma.

Um miðjan annan leikhlutann bætti Ísland við. Hin sextán ára gamla Saga Blöndal sveiflaði kylfunni og sendi pökkinn í stöng og inn af löngu færi. Laglega gert en Saga er dóttir Guðrúnar Kristínar Blöndal og Sigurðar Sigurðssonar, sem bæði eru lifandi goðsagnir í hokkíheiminum. Staðan var 3:0 fyrir lokaleikhlutann.

Framan af í lokaleikhlutanum var markvörður Nýja-Sjálands í stanslausri skothríð frá gríðarlega beittum og ákveðnum Íslendingum. Hvert skotið af öðru fór á ramman en hún Danielle Strayer varði og varði. Birta Júlía tók svo þau fáu skot sem komu hinum megin.

Það var svo á 49. mínútu sem Nýja-Sjáland skoraði, nokkuð óvænt, en Silvía Rán svaraði mínútu síðar og gerði nánast út um leikinn. Mikið fjör var á lokamínútunum, skautað marka á milli og pústrar í gangi á milli leikmanna.

Lokatölur urðu 4:1 og Ísland er nú við hlið Nýja-Sjálands í 2.-3. sæti riðilsins. Bæði lið hafa þrjú stig. Ástralía er í toppsætinu með sex stig en Tyrkland, Króatía og Úkraína eru öll með tvö stig.

Næsti leikur Íslands er gegn Tyrkjum á miðvikudagskvöld kl. 20.

Mörk/stoðsendingar:

Ísland: Silvía Rán Björgvinsdóttir 2/1, Sunna Björgvinsdóttir 1/1, Saga Blöndal 1/0, Teresa Snorradóttir 0/1, Kolbrún María Garðarsdóttir 0/1.

Nýja-Sjáland: Caitlin Heale 1/0,  Jana Kivell 0/1.

Refsimínútur:

Ísland: 10 mín.

Nýja-Sjáland: 6 mín.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Ísland 4:1 Nýja-Sjáland opna loka
60. mín. Leik lokið Stórgæsilegur sigur í heilsteyptum og góðum leik. Ísland er nú með þrjú stig eins og Nýja-Sjáland í 2.-3. sæti riðilsins.
mbl.is