Hálfpartinn þvingaður í frjálsíþróttir

Kristján Viggó Sigfinnsson á Meistaramóti Íslands um helgina.
Kristján Viggó Sigfinnsson á Meistaramóti Íslands um helgina. mbl.is/Sigurður Ragnarsson

Ármenningurinn Kristján Viggó Sigfinnsson, 16 ára, sló um helgina 23 ára gamalt piltamet í hástökki innanhúss þegar hann fór með sigur af hólmi í greininni á Meistaramóti Íslands í frjálsíþróttum innanhúss í Kaplakrika í Hafnarfirði. Kristján gerði sér lítið fyrir og stökk hæst 2,15 metra en Einar Karl Hjartarson átti gamla metið, 2,13 metra, ásamt Kristjáni en gamla metið hafði staðið frá árinu 1997.

Kristján var með mikla yfirburði í greininni en hann byrjaði á því að reyna við 2,15 metra og náði því strax í annarri tilraun. Hann reyndi svo þrívegis að stökkva yfir 2,17 metra sem tókst ekki.

Kristján var tíu ára gamall þegar hann byrjaði að æfa frjálsar íþróttir en hástökkvarinn viðurkennir að hann hafi ekki haft mikinn áhuga á íþróttum til að byrja með.

„Ég byrjaði að æfa frjálsar íþróttir þegar ég var ungur og ég tók þátt í minni keppni í kringum ellefu ára aldurinn. Í upphafi tók ég í raun þátt í öllum greinum þar sem fólk var að reyna að átta sig á því í hverju ég væri bestur. Ég hafði takmarkaðan áhuga á þessu persónulega til að byrja með og var hálfpartinn þvingaður í frjálsar íþróttir þar sem ég vildi ekki æfa neitt á mínum yngri árum. Ég vann hástökkskeppnina á mínu fyrsta móti og með sigrinum kom aukinn áhugi. Þegar ég var tólf ára setti ég svo mitt fyrsta Íslandsmet utanhúss í hástökki og ég hef í raun æft greinina af kappi síðan þá.“

Viðtalið í heild sinni er í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert