Með fjórar línur af toppleikmönnum

Saga Blöndal, lengst til hægri, í leiknum í kvöld.
Saga Blöndal, lengst til hægri, í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Hin 16 ára Saga Blöndal skoraði eitt mark í 4:1-sigri Íslands gegn Nýja-Sjálandi á HM kvenna í íshokkí í kvöld. Var markið fyrsta A-landsliðsmarkið hennar og þótti við hæfi að fá unglinginn í stutt spjall eftir leik.

Fyrsta markið og þú fékkst að eiga pökkinn.

„Já það er alltaf þannig þegar maður skorar fyrsta markið sitt.“

Ég sá að þú fagnaðir innilega. Var ekki spælandi að heyra í kallkerfinu að Teresa Snorradóttir hefði skorað en ekki þú?

„Ég var nú bara svo glöð að ég tók ekki einu sinni eftir því. Þetta var svo leiðrétt þannig að þetta skipti mig engu máli.“

Ég heyrði greinilega að sumir í stúkunni voru ekki alveg nógu hressir með þessi mistök, nefni þó engin nöfn.

Þetta er annað mótið þitt með A-landsliðinu. Er mikill munur núna og á mótinu í Rúmeníu þar sem þú varst nýliði?

„Við vorum ekki einu sinni með heilt lið í fyrra en núna erum við með fjórar línur af toppleikmönnum og þetta er ógeðslega gaman, þrátt fyrir klúðrið í leiknum gegn Ástralíu. Það er mjög góð tilfinning að vinna þetta sterka lið 4:1.“

Saga Blöndal á fullri ferð í leiknum við Ástralíu.
Saga Blöndal á fullri ferð í leiknum við Ástralíu. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Þú ert að spila í Svíþjóð. Hvernig gengur það og í hvaða deild er liðið þitt?

„Liðið mitt er í 1. deildinni sem er næstbesta deildin í Svíþjóð. Deildin er mjög sterk og við náðum þriðja sætinu, sem var einmitt það sem við stefndum að og það var geggjaður árangur. Mér hefur gengið mjög vel og ég hef þroskast hratt. Það er mun meiri hraði í sænsku deildinni og mér hefur aldrei farið jafn mikið fram og í vetur. Ég er því mjög þakklát að hafa fengið tækifæri á að spila þarna.“

Það er einn Íslendingur með þér í liðinu, Herborg Geirsdóttir. Var ekki ágætt að hafa einn hálfgerðan Innbæing með sér. Það eru ekki allir sem fara að heiman þegar þeir eru nýorðnir 16 ára.

„Það var kannski ekki nauðsynlegt en samt mjög gott. Við bjuggum saman og það var gott að geta talað móðurmálið,“ sagði þessi magnaði leikmaður að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert