Á leið á HM í Eistlandi

Aldís Kara Bergsdóttir var kjörin skautakona ársins 2019.
Aldís Kara Bergsdóttir var kjörin skautakona ársins 2019. mbl.is/Kristinn Magnússon

Listdansskautarinn Aldís Kara Bergsdóttir er á leið á heimsmeistaramót unglinga í listhlaupi sem fer fram í Tallinn í Eistlandi dagana 2.-8. mars. Aldís Kara verður fyrsti íslenski skautarinn sem tekur þátt á heimsmeistaramóti en hún vann sér inn keppnisrétt á mótinu á Norðurlandamótinu í Noregi fyrir tveimur vikum.

Á heimsmeistaramótinu mun Aldís Kara keppa með stutt prógramm föstudaginn 6. mars og hefst keppni í kvennaflokki klukkan 10:45 að staðartíma í Eistlandi. Það mun svo koma í ljós, daginn áður, hvar hún lendir í rásröðinni en 51 keppandi frá 41 landi keppir þann dag.

Niðurskurður er eftir stutta prógrammið og munu þeir keppendur sem eru í efstu 24 sætunum fá að halda áfram á laugardeginum í frjálsa prógrammið. Þetta er í fyrsta skiptið sem Ísland á keppanda á heimsmeistaramóti unglinga en áður hefur farið lið í samhæfðum skautadansi á heimsmeistaramót. 

mbl.is