Silvía Rán setti þrennu í 6:0 sigri á Tyrkjum

Hin 15 ára gamla Hilma Bergsdóttir trúir því varla að …
Hin 15 ára gamla Hilma Bergsdóttir trúir því varla að hún hafi verið að skora. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Ísland og Tyrkland mættust í B-riðli 2. deildar kvenna í íshokkí í kvöld. Leikurinn var sá síðasti í þriðju umferðinni en fyrr í dag voru Króatar kjöldregnir af Áströlum, sem unnu 15:0. Nýja-Sjáland vann svo Úkraínu 5:3. Ástralar og Ný-Sjálendingar höfðu því stungið hin liðin af og varð Ísland að vinna til að halda í við toppliðin tvö.

Sara Smiley og stelpurnar hennar í íslenska liðinu héldu uppteknum hætti frá því í síðasta leik og hreinlega völtuðu yfir Tyrkina. Rólegt var í byrjun en um leið og Ísland skoraði fyrsta markið varð ekki aftur snúið. Silvía Rán Björgvinsdóttir opnaði markareikninginn á 7. mínútu og eftir það komu mörkin með reglulegu millibili. Teresa Snorradóttir var næst á blað og þriðja mark fyrsta leikhluta skoraði yngsti leikmaður Íslands, hin fimmtán ára Hilma Bóel Bergsdóttir. Það skemmtilega við Hilmu er að önnur systir hennar er Aldís Kara Bergsdóttir, fremsti listskautari landsins og skautakona ársins 2019.

Þegar annar leikhluti hófst var staðan 3:0 og spurning hvort Tyrkirnir ætluðu að svara fyrir sig. Mótstaðan var mun meiri og Ísland bætti ekki við marki þrátt fyrir nokkur fyrirtaksfæri. Staðan hélst 3:0 nokkuð fram í lokaleikhlutann þar til Silvía Rán afgreiddi leikinn endanlega með öðru marki sínu. Hún bætti svo einu marki í sarpinn áður en markamaskínan Sunna Björgvinsdóttir skoraði lokamark leiksins. Öruggur 6:0-sigur varð niðurstaðan og Ísland er áfram í 2. sæti riðilsins.

Eins og í síðasta leik stóð Birta Júlía Helgudóttir í markinu og varði vel það litla sem þurfti. Silvía Rán er algjört skrímsli á vellinum. Samleikur hennar og Sunnu Björgvinsdóttur er magnaður og þær virðast alltaf vita af hvor annarri.

Ísland er nú komið með sex stig og er í slagnum um verðlaun, ásamt liðum Ástrala og Nýja-Sjálands. Næsti leikur er gegn Króatíu kl. 20 á morgun.

Mörk/stoðsendingar:

Ísland: Silvía Rán Björgvinsdóttir 3/1, Sunna Björgvinsdóttir 1/1, Teresa Snorradóttir 1/0, Hilma Bóel Bergsdóttir 1/0, Saga Blöndal 0/1, Guðrún Marín Viðarsdóttir 0/1, Herborg Geirsdóttir 0/1, Brynhildur Hjaltested 0/1.

Refsimínútur:

Ísland: 12 mín.

Tyrkland: 2 mín.

Íslenska liðið fagnar vel í kvöld.
Íslenska liðið fagnar vel í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason
Ísland 6:0 Tyrkland opna loka
60. mín. Hatice Dagli (Tyrkland) 2 mín. brottvísun
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert