Hjólreiðamóti við Persaflóa hætt vegna veikra Ítala

Chris Froome á fullri ferð á mótinu í Abu Dhabi.
Chris Froome á fullri ferð á mótinu í Abu Dhabi. AFP

Keppni á UAE-túrnum, árlegu hjólreiðamóti í Abu Dhabi í Sameinuðu arabísku furstadæmunum, var hætt í kvöld eftir að í ljós kom að tveir ítalskir keppendur höfðu veikst af kórónuveirunni.

Tvær leiðir voru eftir af keppninni þar sem margir af bestu hjólreiðamönnum heims voru á meðal þátttakenda. Þar á meðal var Bretinn Chris Froome sem fjórum sinnum hefur unnið Frakklandshjólreiðarnar, Tour de France, en hann keppti í fyrsta skipti frá því hann fótbrotnaði í júní á síðasta ári.

Allir keppendur verða í kjölfarið skoðaðir til að ganga úr skugga um að þeir séu ekki smitaðir.

„Það er synd keppninni skuli hafa verið aflýst en heilsa almennings hefur forgang. Ég vona að þeir sem veiktust nái sér fljótt og ekki komi meira upp. Við bíðum eftir að verða skoðaðir og höldum okkur á hótelinu þar til frekar upplýsingar berast,“ sagði Froome við BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert