Létu sjö mörk nægja

Kolbrún Garðarsdóttir og Sarah Smiley fagna fyrsta marki leiksins.
Kolbrún Garðarsdóttir og Sarah Smiley fagna fyrsta marki leiksins. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Fjórða umferðin í 2. deild B í íshokkí kvenna fór fram í dag og kvöld í Skautahöllinni á Akureyri. Ástralía hóf daginn með því að valta yfir Úkraínu 9:1. Tyrkland og Nýja-Sjáland áttu næsta leik og þar vann Nýja-Sjáland 2:1. Ísland og Króatía áttust svo við í kvöld og varð sú viðureign afar ójöfn. Leikmenn Íslands sýndu allar sínar bestu hliðar og röðuðu inn mörkum eftir fremur rólega byrjun í leiknum. Aðeins stórgóður markvörður Króata kom í veg fyrir enn stærri sigur en Ísland vann 7:0.

Ísland sótti allan fyrsta leikhlutann en spil og samvinna var ekki eins og best skyldi. Greinilegt var að leikmenn voru orðnir þreyttir, enda liðin að spila sinn fjórða leik á fimm dögum. Króatar pökkuðu í vörn frá fyrstu mínútu og var erfitt að finna svæði til að vinna á. Leikmenn reyndu því fjölda langskota sem hrukku af varnarmúrnum. Mikið skorti upp á hraða og nákvæmni í sendingum hjá leikmönnum Íslands svo fá alvörufæri sköpuðust. Kolbrún María Garðarsdóttir sá til þess að Ísland fór með forskot inn í klefa eftir fyrsta leikhlutann. Hún fann glufu til að keyra í og þrumaði pökknum í markið af nokkuð löngu færi. Kolbrún er einn allra skemmtilegasti leikmaður liðsins, full af ákafa og krafti.

Mikil batamerki voru á leik Íslands í öðrum leikhluta. Hraðinn jókst og það var meiri kraftur í öllu. Mörkin urðu þrjú í leikhlutanum og í raun óskiljanlegt að þau hafi ekki orðið fleiri. Hver sóknin rak aðra en Petra Mlinarevic varði virkilega vel í marki Króata. Sunna Björgvinsdóttir og Hilma Bóel Bergsdóttir skoruðu með stuttu millibili en undir lok leikhlutans skoraði Silvía Rán eftir einleik frá eigin marki. Staðan var 4:0 eftir leikhlutann og nóg eftir til að bæta við.

                Sarah Smiley var fljót að skora í lokaleikhlutanum og síðan bættu Kristín Ingadóttir og Sigrún Árnadóttir við mörkum. 7:0 varð niðurstaðan en Ísland átti sjálfsagt um 100 skot að marki í þessum leik og helmingur þeirra fór á rammann. Króatinn Petra Mlinarevic varði haug af skotum og var langbesti maður vallarins.

Lokaumferðin verður leikin á laugardaginn og þá mætast Króatía og Tyrkland, Ástralía og Nýja-Sjáland og svo Ísland og Úkraína kl. 17. Staðan fyrir lokadaginn er sú að Ástralía er með tólf stig, Ísland og Nýja-Sjáland hafa níu stig, Tyrkland, Úkraína og Króatía hafa svo öll tvö stig.

Mörk/stoðsendingar:

Ísland: Kolbrún María Garðarsdóttir 1/1, Flosrún Vaka Jóhannesdóttir 0/2, Hilma Bóel Bergsdóttir 1/0, Kristín Ingsdóttir 1/0, Silvía Rán Björgvinsdóttir 1/0, Sunna Björgvinsdóttir 1/0, Sarah Smiley 1/0, Sigrún Árnadóttir 1/0, Berglind Leifsdóttir 0/1, Saga Blöndal 0/1, Guðrún Marín Viðarsdóttir 0/1, Brynhildur Hjaltested 0/1, Anna Sonja Ágústsdóttir 0/1, Elín Alexdóttir 0/1.

Refsimínútur:

Ísland: 2 mín.

Króatía: 12 mín.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Ísland 7:0 Króatía opna loka
60. mín. Karla Sojat (Króatía) 2 mín. brottvísun Pirraðasti maður vallarins er enn sendur í boxið.
mbl.is