Segir að Ólympíuleikunum verði frestað um eitt ár

AFP

Shinzo Abe, forsætisráðherra Japan, hefur formlega krafist þess að Ólympíuleikunum í Tókýó verði frestað og segir að Thomas Bach forseti Alþjóða ólympíunefndarinnar, IOC, sé 100 prósent sammála því að fresta leikunum og þeir fari fram í síðasta lagi sumarið 2021.

„Við báðum Bach forseta að skoða það að fresta leikunum um eitt ár til að gera íþróttafólki kleift að keppa við bestu aðstæður, og gera viðburðinn öruggan fyrir áhorfendur," sagði Abe við fréttamenn.

„Bach forseti segir að hann sé 100 prósent sammála," sagði forsætisráðherrann en fundahöld hafa staðið yfir í dag um mögulega frestun á leikunum.

Alþjóðaólympíunefndin gaf út í fyrrakvöld að til greina kæmi að fresta leikunum en ákvörðun um það yrði ekki tekin fyrr en eftir fjórar vikur. Gríðarlegur þrýstingur hefur verið á IOC að flýta ákvarðanatökunni.

Reuters segir að samkvæmt sínum heimildum sé búið að boða neyðarfund hjá IOC síðar í dag og yfirlýsingar um leikana sé að vænta í kjölfar hans.

mbl.is