Anton öruggur með sæti á Ólympíuleikunum

Anton Sveinn McKee.
Anton Sveinn McKee. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þrátt fyrir að Ólympíuleikunum í Tókýó hafi verið frestað er Anton Sveinn McKee, eini Íslendingurinn sem hafði unnið sér keppnisrétt þar, öruggur með að þurfa ekki að vinna sér hann inn að nýju.

Alþjóðaólympíunefndin, IOC, tilkynnti í dag að allir íþróttamenn sem höfðu tryggt sér keppnisrétt á leikunum muni halda honum. Þá myndu jafnmörg sæti á leikunum og áður verða í boði.

Reiknað er með að leikarnir fari fram sumarið 2021, en þá á að halda þá í síðasta lagi, samkvæmt IOC. Leikarnir áttu að standa yfir frá 24. júlí til 9. ágúst í sumar.

„Þau 57 prósent sem eru komin með keppnisrétt halda honum og það er stefnt að því að kvóti í einstökum íþróttagreinum haldist óbreyttur," sagði stjórnarmaður IOC við fréttastofu Reuters.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert