Ráðherra leitar leiða til að keppnin geti farið fram

Mikill fjöldi fólks fylgist jafnan með Tour de France.
Mikill fjöldi fólks fylgist jafnan með Tour de France. AFP

Roxana Maracineau, íþróttamálaráðherra Frakklands, hefur staðfest að leitað sé allra leiða til þess að halda Frakklandshjólreiðarnar,  Tour de France, á komandi sumri þrátt fyrir að kórónuveiran leiki landið grátt um þessar mundir og verið sé að fresta að aflýsa flestum íþróttaviðburðum næstu mánuðina.

Fram kom í máli ráðherrans að verið væri að kanna leiðir til að halda keppnina á einfaldari máta en áður og með takmörkunum á aðgengi áhorfenda.

Í gær var skýrt frá því að ákvörðunar væri að vænta fyrir 1. maí en þá ætti að liggja fyrir hvort kórónuveiran væri búin að ná hámarki í Frakklandi og keppendur hefðu tvo mánuði til að búa sig undir keppnina  sem á að hefjast í Nice 27. júní.

Tour de France kallar á gríðarlegar öryggisráðstafanir en á þeim 22 dögum sem keppnin tekur hafa um 29 þúsund öryggisverðir verið staðsettir á hinum ýmsu stöðum þar sem hjólað er um sveitir og borgir Frakklands. Á síðustu árum hefur öryggisgæsla verið aukin umtalsvert af ótta við hryðjuverk.

Frakklandshjólreiðarnar eru stærsta íþróttamót heims þar sem áhorfendur þurfa ekki að greiða aðgang en fólk hópast jafnan saman við helstu leiðir til að fylgjast með og hvetja keppendur. Í venjulegu árferði fylgjast um 10 til 12 milljónir manna með hjólreiðamönnunum úr návígi við vegina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert