Engin fordæmi fyrir þessu í mannkynssögunni

Ólympíuleikunum sem áttu að fara fram í Tókýó í Japan …
Ólympíuleikunum sem áttu að fara fram í Tókýó í Japan í sumar hefur verið frestað. AFP

Það mun kosta Japani í kringum 380 milljarða að fresta Ólympíuleikunum um eitt ár en það er japanska dagblaðið Nikkei sem sérhæfir sig í fjármálum sem greinir frá þessu. Toshiro Muto, framkvæmdastjóri skipulagsnefndar Ólympíuleikanna í Tókýó, segir að ferlið að fresta leikunum sé nú þegar hafið en leikunum var frestað á dögunum vegna kórónuveirunnar.

„Það er að mörgu að huga þegar að þú heldur Ólympíuleika,“ sagði Muto í samtali við fjölmiðla í vikunni. „Í fyrsta lagi þurfum við að tryggja það að að aðstaðan fyrir íþróttafólkið, Ólympíuþorpið, æfingasalirnir og auðvitað íþróttahallirnar þar sem viðburðirnir verða haldnir verða á lausu þegar þar að kemur og það er ekki sjálfgefið.“

„Við erum reyna takast á við eitthvað sem hefur aldrei gerst áður í mannkynssögunni og það eru því engin fordæmi fyrir þessu. Það segir sig því sjálft að verkefnið er gríðarlega stórt,“ bætti Muto við en það hefur einnig verið í umræðunni að fresta leikunum fram á haustið en það verður að teljast afar ólíklegt að sú verði raunin.

mbl.is