Eins og að leggja Titanic í bílastæði

Merki Ólympíuleikanna
Merki Ólympíuleikanna AFP

Frestun Ólympíuleikana mun hafa gríðarleg áhrif á niðurröðun og skipulag íþrótta um allan heim. Þurfa íþróttasambönd um allan heim að standa saman og taka tillit til hvors annars sem aldrei fyrr til þess að þetta gangi upp.

Þetta sagði David Grevemberg, formaður íþróttasambands Samveldisleikana, í viðtali við Sky Sports en hann útilokar ekki að frestun Ólympíuleikana sem og útbreiðsla kórónuveirunnar muni hafa áhrif á næstu Samveldisleika sem eiga að fara fram árið 2022.

Alþjóðaólymp­íu­nefnd­in, IOC, tók þá ákvörðun í vikunni í sam­ráði við fram­kvæmda­nefnd leik­anna í Tókýó að fresta Ólymp­íu­leik­un­um 2020. Ólymp­íu­móti fatlaðra, Para­lympics, er sömu­leiðis frestað og flest bend­ir til þess að móts­haldið verði allt í japönsku höfuðborg­inni sum­arið 2021.

„Við erum búin að fresta Ólympíuleikunum um eitt ár og það hefur gríðarleg áhrif á alla aðra viðburði. Þetta er eins og að reyna leggja Titanic í bílastæði. Þetta mun hafa gríðarleg áhrif á áætlanir íþróttafólks,“ sagði Grevemberg og lagði áherslu á að íþróttasambönd reyni að vinna úr flækjunni saman.

„Þetta er frábært tækifæri fyrir okkur til að vinna saman, frekar en að stíga á tærnar á hvort öðru. Við verðum að hugsa um íþróttafólkið sjálft og álagið sem þetta setur á það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert