Grét þegar leikunum var frestað

Simone Biles á flugi.
Simone Biles á flugi. AFP

Simone Biles frá Bandaríkjunum, besta fimleikakona heims og fjórfaldur Ólympíumeistari, segir að hún hafi grátið þegar ljóst varð að Ólympíuleikarnir færu ekki fram í Tókýó í sumar.

Biles hefur verið mjög virk á samfélagsmiðlum en hafði hinsvegar ekki birt nein viðbrögð við frestuninni fyrr en hún kom fram í þætti á NBC-sjónvarpsstöðinni í dag.

„Ég var á æfingu í fimleikasalnum þegar þetta gerðist en þá var leyft að tíu manns kæmu saman. Ég fór inní í búningsklefa á milli æfinga og fékk þá skilaboð. Ég vissi ekki hvernig mér ætti að líða. Ég bara sat þarna og grét en þegar upp var staðið var þetta rétt ávörðun. Við verðum að sjá til þess að allir Bandaríkjamenn og allur heimurinn sé heilbrigður og öruggur. Þetta var erfitt en í lagi," sagði Biles en hún hafði áður sagt að hún myndi hætta keppni að Ólympíuleikunum loknum.

Hún sagði að það yrði mikil áskorun fyrir sig að vera klár í slaginn fyrir leikana sumarið 2021.

„Hvað líkamlega ástandið varðar hef ég engar áhyggjur því þjálfararnir munu koma mér aftur í form en andlega séð verður þetta erfitt. Það mun taka sinn toll af mér og flestum íþróttamönnum. Við þurfum að halda okkur í formi andlega, ekki síður en líkamlega. Það mun skipta miklu máli að hlusta bæði á líkama sinn og hug," sagði Biles við NBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert