Gamla ljósmyndin: Ólympíuverðlaun Völu

Vala umvafin íslenska fánanum, eftir að hún vann það frækilega …
Vala umvafin íslenska fánanum, eftir að hún vann það frækilega afrek að tryggja sér bronsverðlaun í stangarstökki á Ólympíuleikunum í Sydney. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Íþrótta­deild mbl.is og Morg­un­blaðsins heldur áfram með nýj­an dag­skrárlið, sem fór í loftið fyrir viku, þar sem grúskað er í mynda­safni Morg­un­blaðsins og mbl.is. 

Reglu­lega verða birt­ar mynd­ir á mbl.is úr íþrótta­sög­unni af kunnu ís­lensku íþrótta­fólki og/​eða eft­ir­minni­leg­um íþróttaviðburðum. 

Á meðfylgjandi mynd má sjá Völu Flosadóttur, einu íslensku konuna sem unnið hefur til verðlauna á Ólympíuleikum. Myndin er tekin af Sverri Vilhelmssyni á ólympíuleikvanginum í Sydney í Ástralíu eftir að Vala hafði tryggt sér bronsverðlaun í stangarstökki á Ólympíuleikunum árið 2000 og birtist í Morgunblaðinu morguninn eftir. 

Úrslitin í stangarstökkinu á leikunum fóru fram hinn 25. september árið 2000 fyrir framan 110 þúsund áhorfendur í Sydney. 30 keppendur unnu sig inn á leikana í kvennaflokki í stangarstökkinu og í þeim hópi var Þórey Edda Elísdóttir sem komst ekki í úrslit í þetta skiptið. 

Vala stökk yfir 4,50 metra í keppninni og setti ekki einungis Íslandsmet heldur einnig Norðurlandamet. Á þeim tímapunkti var hún í fyrsta sæti í keppninni þar sem hún var sú eina sem hafði farið yfir allar hæðirnar fram að því í fyrstu tilraun. Stacy Dragila frá Bandaríkjunum sigraði á nýju ólympíumeti, 4,60 metrum. Tatiana Grigorieva, sem keppti fyrir Ástralíu, varð önnur með 4,55 metra. 

Vala varð þriðji Íslendingurinn til að vinna til verðlauna á Ólympíuleikum en áður höfðu Vilhjálmur Einarsson og Bjarni Friðriksson afrekað það, 1956 og 1984.

Vala fór einnig á verðlaunapall á fleiri stórmótum á ferlinum. Hún varð Evrópumeistari árið 1996 og fékk silfurverðlaun á HM innanhúss árið 1999.  

Vala fékk í lok árs 2000 sæmdarheitið Íþróttamaður ársins hjá Samtökum íþróttafréttamanna og var tekin inn í Heiðurshöll ÍSÍ hinn 29. desember árið 2012.

mbl.is/Sverrir Vilhelmsson
mbl.is