Missti föður sinn og ömmu

Anthony Yarde
Anthony Yarde AFP

Breski hnefaleikamaðurinn Anthony Yarde hvetur fólk á Bretlandseyjum til að halda sig innandyra, en hann hefur misst föður sinn og ömmu vegna kórónuveirunnar. 

Faðir hans var fimmtugsaldri og við góða heilsu áður en hann smitaðist, að sögn Yardes. „Hann var við góða heilsu og hann er nú látinn, sem og móðir hans, amma mín. Höldum okkur innandyra, annars varir þetta ástand lengur. Það er ekki þess virði að fara út,“ skrifaði Yarde á Instagram. 

Yarde, sem er 28 ára, hefur unnið 19 af 20 bardögum sínum sem atvinnumaður. Átti hann að berjast við Lyndon Arthur í apríl en bardaganum hefur verið frestað fram í júlí. 

mbl.is